Smákökur

Hafrakökur með súkkulaði & rúsínum

October 21, 2020
hafrakökur

Mig langaði svo að gera einhverjar klassískar kökur og hvað er klassískara en hafrakökur? Svo ég fór af stað og skellti í uppskrift með súkkulaði og rúsínum. Mjög mikilvægt að hafa nóg af súkkulaðinu og rúsínum svo að í hverjum bita komi smá af hvoru með!

Þær heppnuðust ótrúlega vel og ég get sagt að þær hafa einnig gott geymsluþol – Ég geymdi þær í boxi upp á borði upp í viku, þar sem var alltaf verið að narta smá í eina og eina og þær voru eins og nýjar þegar seinasta var tekin úr boxinu.

Mjög hentugt að skella í og eiga með kaffibollanum svona í ljósi þess að maður fer töluvert minna á kaffihús og slíkt þessa dagana. Þá er það bara að búa til stemmninguna heima og útbúa gott kaffi og skella einni hafraköku á disk. Ef þú vilt fara einu skrefi lengra þá geturðu kallað hátt á nafn heimilismeðlima þegar kaffi og kaka er tilbúið til fá kaffihúsið alla leið heim.

Hafrakökur

300 g hveiti
300 g púðursykur
150 g haframjöl
1 tsk matarsódi
½ tsk salt
240 g smjör, við stofuhita
2 egg
1-2 dl rúsínur
150 g súkkulaði

Stillið ofn á 200°c. Vigtið saman í skál hveiti, púðursykur, haframjöl, matarsóda, salt og smjör. Hrærið léttilega saman og bætið eggjunum einu í einu saman við.

Mælið rúsínurnar og saxið súkkulaðið niður, gott er að gera það ekki of fínt svo bitarnir séu greinilegir í kökunum. Blandið rúsínum og súkkulaðinu saman við og blandið létt saman.

Mótið kúlur úr deiginu gott er að nota matskeið til viðmiðunnar. Þegar þið hafið mótað allar kúlurnar, raðið þeim á ofnskúffur með bökunarpappír yfir og þrýstið léttilega á þær. En við það verða þær flatari í bakstrinum.

Setjið inn í ofn og bakið í 10-12 mín eða þangað til að þær eru farnar að brúnast aðeins.

Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like