Mér áskotnaðist svo mikið möndlumjöl á dögunum og mig langaði svo að baka úr því. Svo það verður eflaust ýmislegt bakað úr því næstu daga og mánuði.
Ég hef reyndar alltaf verið viðkvæm fyrir miklu hveiti og ger áti. Hef reynt að stilla því í hóf í mörg ár en það er bara svo mikil lífsfylling að borða gott brauð t.d. eru þið ekki sammála?
En það gerir það að verkum að ég prófa mig oft áfram í allskyns bakstri og matreiðslu, prófa að sleppa þessu bæta þessu við og þess háttar.
Svo ég skellti í þessar einföldu kökur, sem voru svo góðar og voru fljótar að klárast og enginn að spá í því hvort það væri hveiti, hafrar eða hvað í þeim – Heldur voru þær einfaldlega bara ljúffengar! Svo án þess að flækja þetta eitthvað frekar hér er uppskriftin:
P.S. Það væri frábær viðbót að setja rúsínur eða dökkt súkkulaði í þessar svona til sparis.
Hafrakökur – 12 stk
80 g haframjöl
130 g möndlumjöl
50 g púðursykur
½ tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
1 egg
50 g smjör, bráðið
Stillið ofn á 175°c. Vigtið þurrefnin í skál og blandið restinni af hráefnunum saman við. Hnoðið saman með sleikju þangað til allt er orðið vel samlagað.
Takið u.þ.b. matskeið af deigi og rúllið í kúlu með höndunum. Leggið þær á bökunarpappír og þrýstið þokkalega á þær og mótið í hring. Kökurnar dreifa lítið meira úr sér og því gott að móta þær eins og maður vill hafa þær.
Setjið inn í ofn og bakið í 7-10 mín. Leyfið að kólna lítilega áður en þið fáið ykkur.
– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –