Kvöldmatur

Kjöt í karrý

November 3, 2021
kjöt í karrý

Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég birti á Instagram á dögunum mynd af kvöldmatnum okkar sem var kjöt í karrý, hélt mögulega að þetta væri eitthvað sem fólk væri ekkert hrifið af lengur en þar hafði ég greinilega rangt fyrir mér.

Fékk meðal annars þau skilaboð með ósk um að lambakjöt væri notað meir í hversdagslegum uppskriftum í bland við grillkjötið og sunnudagslambið en þetta eru þeir tveir mátar sem við eldum mest af þegar kemur að lambakjöti.

Ef ég sé lambagúllas út í búð þá er ég fljót að grípa það, því það er ekki alltaf í boði – Mér finnst það algjör snilld í hversdagsmat svona íslenska rétti eins og kjöt í karrý en einnig indverska og gríska lambarétti. Held ég verði bara að setja slíka hingað inn seinna meir.


Kjötið soðið – fyrir 3-4 –

500-600 g lamba gúllas
4 gulrætur
vatn til suðu

Brúnið kjötið á háum hita í pottinum í 1-2 mín, bætið þá vatni í pottinn svo fljóti vel yfir kjötið. Leyfið suðunni að koma upp og fleytið ofan af ef þess þarf. Lækkið undir pottinum og leyfið að malla á miðlungshita í 30 mín.

Skerið þá gulrætur í cm stóra bita og bætið út í hjá kjötinu.

Karrýsósa

25 g smjör
100 ml hveiti
400 – 500 ml kjötsoð
200 ml mjólk
2 msk karrý
salt og pipar eftir smekk

Takið annan pott og bræðið smjör í pottinum á miðlungshita, þegar smjörið er bráðið bætið hveiti saman við og hrærið í smjörbollu. Bætið þá soði af kjötinu saman við hveitibolluna u.þ.b. 100 ml í einu og hrærið vel þar til kekkjalaust. Endurtakið svo þar til öllum vökvanum hefur verið blandað út í, soðinu og mjólkinni. Bætið karrýinu saman við ásamt salti og pipar eftir smekk. Bætið meiri mjólk saman við ef þið viljið þynna sósuna meira.

Bætið þá kjötinu og gulrótum saman við sósuna og leyfið að malla á lágum hita þangað til rétturinn er borinn fram.

Ég kýs að borða kjöt í karrý alltaf með hrísgrjónum en einnig er hægt að bera það fram með kartöflum og öðru soðnu grænmeti.

Njótið!

– Fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –


You Might Also Like