Smákökur

Hafra tvistur

November 8, 2021
hafra tvistur

Þessar eru æði, ég er vissulega mjög veik fyrir góðum hafrakökum. Ég hef lengi vel bakað uppskriftina hennar Helenu sem margir kannast við og heitir Hafrakossar, alveg dásamlegar kökur.

En að þessu sinni langaði mig að prófa eitthvað aðeins -öðruvísi en með svipuðum stíl svo það varð til að ég gerði þessar. Þær eru töluvert léttari en kossarnir og alveg einstaklega einfaldir í bígerð – Alveg fullkominn bakstur fyrir yngri bakara. Þessar koma sterkt inn fyrir jólabaksturinn eða bara á köldum haustdegi þegar manni langar í smá sætt með kaffinu sínu.


Hafrakökur – u.þ.b. 25-30 samlokur –

150 g smjör
250 g haframjöl, gróft
150 g sykur
2 msk hveiti
1 tsk lyftiduft
2 tsk vanilludropar
2 egg

Stillið ofn á 200°c. Bræðið smjör og blandið öllum þurrefnunum, vanilludropum og eggjum saman við smjörið og hrærið vel saman. Það er allt og sumt!

Takið tvær teskeiðar og setjið deig í aðra þeirra og notið hina til að ýta deiginu úr, setjið á bökunarpappírs klædda ofnplötu og bakið í 8-10 mín eða þangað til þær eru orðnar gullin brúnar. Leyfið kökunum að kólna.

Smjörkrem

200 g smjör, við stofuhita
300 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
½ -1 tsk kanill
2 msk rjómi

Þeytið öll innihaldsefnin saman í hrærivél þangað til kremið er orðið létt og ljóst. Gott er að setja hálfa teskeið af kanill til að byrja með og smakka til eftir smekk.

Samsetning

Parið kökurnar saman eftir stærð og lögun. Setjið þá smjörkremið í sprautupoka með stút að eigin vali, hér nota ég Ateco 869, sem gefur fallegt munstur á milli. En einnig er hægt að smyrja kreminu á með hníf – bragðast svo sannarlega eins. Lokið síðan kökunum og geymið kökunar í lokuðu boxi.

Njótið!

– Fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –


You Might Also Like