Eftirréttir

Konfektmús

December 8, 2022
konfektmús

Samstarf // Nói Síríus

Í nokkra daga hef ég verið að hugsa og hugsa hvað ég geti gert spennandi fyrir jólin í ár. Að gera nýjan eftirrétt sem fólki langar að prófa er alveg meir en að segja það. Að því að ég held að við séum mörg okkar föst í þeirri hefð að gera jólaís eða frómas eða það er allaveganna mín reynsla. Svo var það bara í einni Krónu ferð sem hugmyndin að þessum eftirrétt kom í kexdeildinni þegar ég sá makkarónurnar.

Og vitið þið hvað ég er ekki frá því að þetta sé sá eftirréttur sem gæti fengið einhverja til að hætta með ísinn og prófa þessa dýrindis mús þetta árið!

Hún er vissulega fullorðins þessi, þar sem hún inniheldur kaffi en vá hvað ég vona að þið verðið eins hrifin og ég er!


Konfekt mús – fyrir u.þ.b. 6 –

15-20 makkarónur
6-8 msk kaffi, espresso eða sterkt uppáhelt

300 g Rjómasúkkulaði með konfekthnetum frá Nóa Síríus
500 ml rjómi
4 eggjarauður
1 msk flórsykur

Myljið makkarónur í 6 skálar eða eina stóra skál, hellið upp á kaffi og bleytið í makkarónunum með kaffinu.

Brjótið súkkulaðið niður og setjið í pott ásamt 100 ml af rjóma, hitið á lágum hita þangað til að súkkulaðið hefur bráðnað eða bræðið í örbylgjuofn stutt í einu. Hrærið vel og leggið til hliðar.

Léttþeytið 400 ml af rjóma í einni skál og þeytið saman eggjarauður og flórsykur þangað til létt og ljóst í annarri.

Blandið þá súkkulaðinu saman við eggjarauðurnar og hrærið vel saman. Þá er súkkulaðinu blandað saman við rjómann í nokkrum skömmtum og hrært varlega á milli.

Hellið í skál/arnar. Setjið músina inn í ísskáp og leyfið henni að taka sig í minnst 2-3 klst.

Sykurristaðar hnetur

1 dl hakkaðar heslihnetur
½ dl sykur
2 msk vatn

Setjið allt á pönnu á miðlungshita, hrærið í á meðan sykurinn er að hjúpa hneturnar. Tekur um 4-5 mín. Setjið í box og leyfið að kólna.

Áður en músin er borin fram er tilvalið að skreyta hana með bláberjum og ristuðu hnetunum.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –You Might Also Like