Eftirréttir

Súkkulaði frómas

December 14, 2021
frómas

– Unnið í samstarfi við Gott í matinn –

Þegar ég fór af stað með matarbloggið mitt þá var hluti af því að mig langaði að eiga stað fyrir allar uppáhalds uppskriftirnar mínar. Ég gæti bara farið á mína eigin síðu og fundið allar þær uppskriftir sem hafa verið skrifaðar niður í hinar og þessar stílabækur. En það hef ég gert hægt og rólega, alltaf að bæta inn fleiri og fleiri af mínum dálætis uppskriftum í bland við allskyns nýjungar.

En að þessu sinni er það áramóta eftirrétturinn úr fjölskyldunni minni, sem ég held að sé eitthvað sem mamma fór bara að gera á einhverjum tímapunkti og hann bara festist við áramótin því þið vitið fólk á það til að vera dálítið vanafast í kringum jólin. Svo þessi frómas ásamt sherry frómas er í miklu uppáhaldi en hann var jóladags eftirrétturinn.

Ég hef oft heyrt að fólk hræðist aðeins að nota matarlím en ég lofa að það er minna mál að vinna með það en þið haldið og fáið dásamlegan eftirrétt ef þið leggið í að prófa það.


Súkkulaði frómas – fyrir 6-8 manns –

3 egg
100 g sykur
400 ml rjómi
100 ml sterkt kaffi
125 g súkkuaði
6 matarlímsblöð

Leggið matarlím í bleyti í köldu vatni. Þeytið egg og sykur þangað til létt og ljóst í einni skál og rjómann í annarri.

Saxið niður súkkulaði smátt og hellið upp á einn kaffibolla.

Blandið súkkulaðinu saman við eggin og sykurinn og hrærið saman. Mælið þá 100 ml af kaffi, hristið kalda vatnið af matarlímsblöðunum og blandið saman við heitt kaffið. Þá er rjómanum blandað rólega saman við eggjablönduna og kaffinu bætt við í lokin sem hefur fengið að kólna lítillega, gott er að setja smá í einu og hræra á milli svo kaffið bræði ekki rjómann.

Setjið frómasinn í eina stóra skál eða nokkrar minni og kælt í minnst 3-4 tíma. Skreytið af vild áður en frómasinn er borinn fram.

Njótið!

– Fylgstu með á Instagram Döðlur & smjör –

You Might Also Like