Kökur

Minn uppáhalds marengs

March 27, 2021
marengs

– Unnið í samstarfi við Gott í matinn –

Eigum við ekki flest einhverja köku eða einhvern rétt sem við gerum alltaf fyrir hin ýmsu tilefni? Þessi marengs er sú kaka fyrir mér. Ég hef ekki tölu á því fyrir hversu mörg tilefni ég hef bakað þessa köku. Hvort sem það er fyrir mitt fólk eða vini og fjölskyldu, hún er bara svo einföld og þægileg – hægt að baka botnana fram í tímann og stressið því lítið ef um stórar veislur er að ræða.

En ég á það alveg til að bjóðast að gera þessa fyrir fólkið mitt bara til að létta undir þegar það er með veislur því mér finnst fyrirhöfnin svo lítil en kakan svo góð og allir alltaf alsælir með hana.

Fyrir fullkominn marengs af mínu áliti er fyllingin svo mikilvæg, ekkert að flækja það bara nokkur dásamleg hráefni og auðvitað rjóminn! Svo er það hitt – Ég set alltaf á marengs kvöldið áður en hann er borinn fram svo að kakan fái tækifæri til að mýkjast og verða aðeins meira jömmí, persónulega finnst mér grótharður marengs eða seigur alls ekki góður. Ég vil hafa hann mjúkan undir tönn og allt blandist saman vel í einum bita! Það má segja að ég hef sterkar skoðanir á þessum málum.

marengs

Marengs

3 eggjahvítur
150 g púðursykur
80 g sykur

Stillið ofn á 150°c blástur. Setjið öll hráefnin saman í hreina hrærivélarskál og þeytið þangað til að marengsinn er orðinn stífur, alveg stífur.

Gott er að teikna hring á bökunarpappír til að styðjast við, fyrir þetta magn 20-25 cm hring – Gott að nota matardisk eða það sem er manni nálægt.

Ef þið hyggist gera efri botninn líkt og sjá má á myndum, setjið rúmlega helminginn af marengsinum í sprautupoka með rósar stút (2D) og sprautið rósum óreglulega í hring, fyllið síðan upp með dropa af marengs.

Takið restina af marengsinum og smyrjið á bökunarpappírinn og styðjist við hringformið.

Bakið í 40 mín og ekki opna ofninn meðan marengsinn bakast. Opnið ofninn og leyfið honum að hvíla eftir bakstur.

Fylling

400 ml rjómi
100 g þristur
8-10 jarðaber
Karamellusósa

Þeytið rjómann, skerið niður þrista og jarðaber, tiltölulega smátt. Ef þið útbúið karamellusósu er gott að gera það áður svo hún bræði ekki rjómann, en leyndarmálið mitt er að ég nota tilbúna sósu í þennan marengs, alltaf!

Samsetning

Setjið örlítinn rjóma á kökudiskinn og síðan fyrsta botninn, gert til að marengsinn sitji kyrr á disknum. Dreifið rjómanum yfir botninn, síðan þristum og jarðaberjum og loks vel af karamellusósu yfir allt. Takið þá efri marengsinn og tyllið ofan á.

Geymið í kæli þangað til að kakan er borin fram.

Njótið!

– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like