Kökur

Súkkulaðikaka með kexbotni og karamellu

March 1, 2020

Þessi kaka er einfaldlega sú allra besta að mínu mati! Hún var alltaf að fara rata hingað inn en bara hvernær var spurningin. Mér finnst mjög gaman að flikka dálítið upp á hefðbundnar kökur og geri mjög sjaldan súkkulaðiköku með súkkulaðikremi og læt þar við sitja. Finnst mjög gaman að lífga þær enn meira við án þess að ofgera hlutina.

Að því sögðu er þessi kaka frábær ein og sér með kremi og kosturinn er að þú þarft ekki mikið krem því hún bara svo góð.

Ég held að ég geti sagt með fullri vissu að
þetta sé besta kaka sem ég hef borðað

Hún fékk heldur betur góð meðmæli
súkkulaðikaka

Ég bakaði kanilkex daginn áður og ég varð að prófa mig áfram og sjá hvernig það myndi bragðast að setja kexið í botnana. Það kom svo vel út, gaf kökunni smá kanilkeim og kexið var ekki grjóthart en heldur ekki lungnamjúkt, smá bit með öðru bragði með kökunni var alveg að gera sig. Setti svo karamellusósu á milli laga með kreminu að því bara mig langaði það og það var ekkert að skemma fyrir. Algjör bragðbomba.

Þessi kaka er þétt í sér og bakast þannig að ég fæ aldrei topp á hana heldur bakast hún jöfn og verða topparnir flatir sem er frábært þegar maður er að stafla botnunum. Ég baka hana í þremur 6″ formum og vigta alltaf deigið til að deila því jafnt í formin. En ef þið hafið skoðað fleiri uppskriftir frá mér þá hafið þið eflaust rekið augun í það að ég notast langmest við það að vigta í grömmum þegar ég mæli einingar í uppskriftir hjá mér. Finnst það einfaldlega þægilegasta leiðin til að baka og aldrei nein vafamál, gramm er bara gramm. Mæli með að splæsa í góða vigt.


Súkkulaðikaka- sú besta!

220 g hveiti
350 g sykur
80 g kakó
10 g matarsódi
165 g smjör, við stofuhita
1 tsk kaffi, instant
225 g volgt vatn
3 egg
80 g olía, hlutlaus
1-2 tsk vanilludropar
170 g ab mjólk/súrmjólk
150 g LU kanilkex

Stillið ofn á 175°c. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið örlítið saman. Bætið smjörinu saman við þurrefnin og hrærið saman þangað til að deigið líkist brauðmylsnu í áferð. Á meðan blandið saman kaffinu, vatni, eggjum, olíu og vanilludropum saman í skál og hrærið létt saman. Stillið hrærivélina á lága stillingu og hellið vökvanum saman við þurrefnin hægt og rólega. Þegar allur vökvinn er komin saman við mælið ab mjólkina og hellið saman við deigið og hrærið saman.

Kakan er bökuð í 3×6″ formum (eða 2×8″), spreyið þau að innan með PAM spreyi eða smjöri. Gott er að setja bökunarpappír í botninn á formunum. Svo er gott er að vigta skálina sem er notuð fyrir en mín KitchenAid stálskál er nákvæmlega 806 g. Setjið skálina með deiginu á vigtina, dragið þyng skálarinnar frá og deilið í þrennt. Nú er kexið mulið niður og 50 g sett í botninn á hverju formi fyrir sig, setjið síðan jafnt magn af deigi í öll þrjú formin og inn í ofn. Svo er líka bara hægt að dassa ef þið eru ekki nákvæmnis pésar í þessum málum.

Bakið í 25-30 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn úr miðju kökunar.

Leyfið kökunum að kólna í 30-60 mín. Ég mæli svo með því að setja þær í plastfilmu og inn í ísskáp og leyfa þeim að kólna alveg þar. Takið þær svo fram þegar kemur að því að setja á þær krem.

Karamellusósa

200 g sykur
90 g smjör
120 g rjómi
1 tsk salt, eða eftir smekk

Setjið sykurinn í pott og stillið á miðlungshita. Leyfið sykrinum að bráðna. Ég reyni að hræra sem minnst í sykrinun til að karamellan kristallist síður. Þegar sykurinn er bráðnaður, takið pottinn af hitanum og bætið smjörinu saman við og hrærið á meðan. Þegar smjörið og sykurinn hafa blandast saman hellið rjómanum í mjórri bunu saman við. Ef hráefnin eru köld þarf mögulega að setja pottinn aftur á helluna og leyfa karamellunni að sjóða í smá stund í viðbót eða þangað til allt er vel samblandað. Bætið teskeið af salti saman við í lokin.

Smjörkrem

250 g smjör, við stofuhita
500 g flórsykur
3-4 msk rjómi
3 msk kakó
2 tsk vanilludropar

Setjið smjörið í hrærivél og þeytið vel, bætið svo restinni af hráefnunum saman við og þeytið vel, þá meina ég rosalega vel til að það verði létt og ljúft.

Samsetning

Takið botnana úr kæli og úr plastinu. Setjið fyrsta botninn á disk og setjið vænan skammt af kremi ofan á og dreifið yfir. Ég setti dass af karamellusósu yfir kremið og svo næsta botn ofan á, endurtakið. Hjúpið kökuna með kremi og skafið hana slétta, gott er að hafa hana nakta (að það sjáist í kökuna í gegnum kremið) því kakan er svo bragðmikil og góð að ekki er þörf á miklu kremi á hana. Skreytið svo eftir eigin hugmyndaflugi.

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like