Bakstur/ Deigbakstur/ Í útileguna

Snúðar með marsípan og kardimommum

February 17, 2020
snúðar

Í janúar 2011 fór ég sem skiptinemi til Svíþjóðar nánar tiltekið til Lund. Það var æðislegur tími og eitt af því sem ég kynntist þar var fika, sænska orðið yfir kaffitíma. Við vorum alltaf að gera vel við okkur og fara í fika á einhverju góðu kaffihúsi eða bakarí og þar kynntist ég Semlor, sænska útgáfunni af bolludagsbollum. Þær eru svo mikið uppáhald hjá mér og það hættulega gerðist í gær að ég sá að IKEA selur Semlor í kaffihúsinu sínu! Ég mun gera mér ferð þangað til að eiga huggulegt fika í IKEA.

En að tengingu við þessa snúða! Já, þetta eru semsagt snúðar sem líkja dálítið eftir bragðinu í semla bollunum- Marsípan og kardimommur. Bollurnar eru semsagt bollur með áberandi kardimommubragði, möndumassi settur í bolluna, rjómi yfir lokið á og sáldrað yfir með flórsykri. Ég fæ sko vatn í munninn bara við tilhugsunina.

Ég var í alvörunni að skoða flugmiða til Svíþjóðar um daginn á þessum árstíma til að geta örugglega hitt á þann tíma sem bollurnar væru til sölu, læt mig hafa að fara í IKEA eða gera sjálf í bili held ég samt.

En snúðarnir eru dásamlegir og fylltu örlítið upp í þessa löngun mína í Semlor. Mæli allaveganna heilshugar með að þið prófið þá.

snúðar

Snúðar

200 ml mjólk
11 g þurrger (1 pk)
2 egg
100 g smjör, við stofuhita
1 msk sykur
500 g hveiti (blár Kornax)
1½-2 tsk kardimommur
½ tsk salt

Færið mjólkina í pott og hitið þangað til hún er ylvolg, setjið í hrærivélina og gerið saman við. Hrærið saman með krók og leyfið að hvíla í stutta stund. Takið saman hin hráefnin á meðan. Blandið eggjum, smjöri og sykri saman við og hrærið á lágum hraða. Mælið hveiti, kardimommur og salt saman og blandið út í hrærivélina smá í einu, þangað til allt hveitið er komið saman við. Leyfið vélinni að vinna í 2-3 mín. Leyfið deiginu að hvíla í klukkustund undir volgu viskastykki.

Fylling

150 g smjör, við stofuhita
150 g sykur
150 g marsípan
1 tsk kardimommur
2 tsk vanillusykur

Setjið öll hráefnin saman í skál og best er að vinna þau saman með hendinni, þangað til þau hafa blandast vel saman.

Samsetning

Rúllið deigið út í ferning u.þ.b. 60×40 cm eða hálfan cm að breidd. Dreifið fyllingunni yfir deigið, gott er að gera þetta með sleikju eða spaða. Leggið deigið saman til helminga á styttri hliðina og rúllið yfir nokkrum sinnum með kökukefli til að þinna deigið aðeins og blanda fyllingunni aðeins saman við deigið sjálft.

Skerið deigið í ræmur u.þ.b. 2 cm á breidd. Takið hverja ræmu og snúið uppá hana, haldið svo í annan endann og snúið deiginu upp hring í kringum fingurna sem halda í endann. Passið að seinni endinn fari undir snúðinn. Einnig er hægt að rúlla deiginu upp og skera í snúða setja á plötu eða eldfast mót þétt saman.

Leyfið snúðunum að hefast í 30 mín. Hitið ofn á 200°c. Eftir að snúðarnir hafa hefast brjótið egg í skál og penslið yfir snúðana. Fallegt er að setja perlusykur yfir snúðana en ekki nauðsynlegt. Bakið snúðana í 20-25 mín eða þangað til þeir eru orðnir fallega brúnir.


Æðislegt að eiga poka af þessum í frystinum eða njóta þeirra bara strax – smá hættulegt, alveg séns á þú fáir þér einn og svo annan og kannski einn í viðbót!

You Might Also Like