Bakstur

Vatnsdeigsbollur

February 15, 2020
vatnsdeigsbollur

Bolludagur framundan, bolla bolla! Ég viðurkenni að í æsku fannst mér bolludagur ekkert æðislegur, ég man að ég fékk bollu í nesti og mamma að nostra þvílíkt við mann en mér fannst þetta bara ekkert sérstakt. Svo liðu árin og ég greinilega þroskaðist eitthvað en í dag finnst mér bollur mjög góðar en vill helst hafa þær dálítið spennandi, ekki bara rjómi og sulta.

Undanfarin ár hef ég gert það að velja mér einhverja djúsí bollu í góðu bakarí og þannig njóta bolludags og hefur bolludagsbaksturinn verið í dvala hjá mér undanfarin ár. Sem er líka bara í góðu lagi. Þá er bara gott að taka það upp aftur þegar manni langar og skella sér bara í bakaríið ef mann langar, það má allt!

vatnsdeigsbollur

En uppskriftin af bollunum er frekar einföld en það er fyrst og fremst fyllingarnar sem gera góða bollu svo ég ætla að gefa ykkur hugmyndir og uppskriftir af ólíkum fyllingum fyrir bolludaginn mikla.

Það tóku allir mjög virkan þátt á heimilinu að koma með hugmyndir að fyllingum en þær voru m.a. þessar

  Banana, nutella og rjómi

Mjólkursúkkulaði, pralín og rjómi

•  Mynta, dökkt súkkulaði og rjómi

Mangópúrra, bláber og rjómi

Appelsína, hvítt súkkulaði og rjómi

Nougat, sulta og rjómi

Nougat, vanillusósa og rjómi

Sítrónufrómas og rjómi

Súkkulaðimús

vatnsdeigsbollur

Vatnsdeigsbollur

250 ml vatn
125 g smjör
125 g hveiti
4 egg

Stillið ofn á 180°c. Setjið vatn og smjör í pott og leyfið smjörinu að bráðna. Takið pottinn af hitanum og hrærið hveitinu saman við þar til deigið er orðið einn massi.. Kælið deigið örlítið. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið bollur á smjörpappírsklædda plötu, eða notið tvær teskeiðar til setja deigið á plötuna. Bakið í 18-20 mínútur.  Ef þið viljið hafa bollurnar stærri þá er tíminn aukinn í samræmi við það.


1) Bolla með hvítu súkkulaði, hindberjum og turkish pepper

Setjið Turkish pepper í matvinnsluvél og myljið smátt. Bræðið súkkulaði í örbylgju eða yfir vatnsbaði og dýfið bollunum ofan í til að gera á þær “hatt”, skellið svo bollunni ofan í lakkrís mulninginn og leyfið að harðna. Gott er að setja smá stund inn í ísskáp.

Á meðan græjið þið rjómann sem er hér að neðan:

Rjómi með hvítu súkkulaði

500 ml rjómi
150 g hvítt súkkulaði

Bræðið súkkulaðið og hrærið það saman, leyfið að kólna lítilega meðan rjóminn er þeyttur. Þeytið rjómann og blandið súkkulaðinu saman við með sleikju.

Skerið bollurnar í tvennt og fyllið þær með rjómanum, myljið frosin hindber yfir rjómann og sáldrið Turkish pepper yfir, setjið svo lokið ofan á bolluna.

2) Bolla með karamellusósu, kókos og banana

Útbúið karamellusósu eftir uppskriftinni hér fyrir neðan:

Karamellusósa

200 g sykur
90 g smjör
120 g rjómi
1 tsk salt, eða eftir smekk

Setjið sykurinn í pott og stillið á miðlungshita. Leyfið sykrinum að bráðna. Ég reyni að hræra sem minnst í sykrinun til að karamellan kristallist síður. Þegar sykurinn er bráðnaður, takið pottinn af hitanum og bætið smjörinu saman við og hrærið á meðan. Þegar smjörið og sykurinn hafa blandast saman hellið rjómanum í mjórri bunu saman við. Ef hráefnin eru köld þarf mögulega að setja pottinn aftur á helluna og leyfa karamellunni að sjóða í smá stund í viðbót eða þangað til allt er vel samblandað. Bætið teskeið af salti saman við í lokin.

Þegar sósan er klár, dýfið bollunum ofan í karamelluna til að gefa bollunni hatt. Þeytið rjóma og skerið banana í sneiðar. Skerið bollurnar í tvennt og setjið á þær rjóma, ristaðan kókos í flögum (fæst tilbúinn), bananasneiðar og síðan dass af karamellusósu ofan á, lokið svo bollunum.

3) Bolla með lakkríssósu og hindberjarjóma

Hindberjarjómi

200 ml rjómi
50 g frosin hindber

Takið berin úr frysti og leyfið að þiðna lítilega. Þeytið rjómann og blandið berjunum saman við rjómann. Ef gera á meiri rjóma aukið magn hindberjana í samræmi.

Lakkríssósa

1 pk Bingó kúlur
50 ml rjómi

Setjið hráefnin tvö saman í pott á miðlungshita og bræðið saman. Flóknara verður það ekki. Tekur enga stund og geymist vel í lokuðu íláti inn ísskáp, svo hægt er að eiga sósuna inn í kæli fyrir ís og pönnukökur t.d.

Dýfið bollunum ofan í lakkríssósuna til að gera a þær hatt, skerið þær í tvennt, setjið lakkríssósu í botn bollunar, rjóma yfir og svo örlítið af sósu yfir aftur og setjið lokið ofan á.

4) Bolla með Nougat og mjólkursúkkulaði karamellu

Útbúið karamelluna hér fyrir neðan, og dýfið bollunum ofan í til að mynda hatt á þær.

Mjólkursúkkulaði karamella

100 g karamella, sjá uppskrift ofar
50 g mjólkursúkkulaði

Hitið karamelluna upp í örbylgju í nokkrar sekúndur svo hún verði vel volg. Bætið súkkulaðinu saman við og leyfið karamellunni að bræða súkkulaðið, hrærið svo vel saman. Ef útbúa á meiri karamellu notið þessi hlutföll.

Þeytið þar næst rjóma í því magni sem ykkur hentar, rífið niður nougat með rifjárni yfir bollurnar, magn eftir smekk. Setjið síðan u.þ.b. teskeið af súkkulaðikaramelluna yfir nougatið og setjið síðan lokið á.

Njótið!

You Might Also Like