Deigbakstur

Vatnsdeigskrans með pralínkremi, karamellu og Lindor súkkulaði (vatnsdeigshringur)

February 25, 2020
vatnsdeigskrans

Stundum gerist þetta, ég bý til eitthvað og fer svo að huga að einhverju allt öðru- sinna fjölskyldunni, vinnunni eða jafnvel sjálfri mér. Að þessu sinni var það fjölskyldan, ég bakaði kransinn á laugardegi og færði tengdaforeldrum mínum áður en við brunuðum af stað út úr bænum upp í bústað.

Ég gerði heiðarlega tilraun til að taka tölvuna með en það voru deyjandi líkur á því að ég myndi taka hana upp í stað þess að njóta með fjölskyldunni. Það reyndist rétt, við fórum og nutum góða veðursins á sunnudeginum. Herramaðurinn á heimilinu þurfti svo á sunnudeginum óvænt að skreppa út í búð, á meðan hugsaði ég hvað ætli hann reyni að finna fyrir konudag í Krambúðinni á Flúðum til að færa sinni. Hann færði mér allaveganna mikinn og góðan hlátur! Þegar hann kom til baka með rósir og litlar bleikar möndlukökur og þeir strákarnir röðuðu þeim upp á borðið í hjarta. Ég get allaveganna sagt að ég mun aldrei gleyma þessum konudagsdegi.

Svo var farið í kaffi til ömmu og henni færðum við blóm í tilefni dagsins. Konudagurinn toppaður með máltíð á KFC á Selfossi. Eins og ég segi of gott til að gleymast.

vatnsdeigskrans

Það þýðir þó að ég er orðin of sein með þessa uppskrift fyrir Bolludag en á næsta ári verður þessi krans endurtekin ásamt bollunni sem fékk vinninginn um bestu bolluna þetta árið á þessu heimili- Bolla með hvítu súkkulaði, hindberjum og turkish pepper. Ég get lofað að við smökkuðum mjög margar bollur þetta árið og hún stóð sko heldur betur upp úr!


Heimagert pralín

50 g heslihnetur
50 g möndlur
50 g sykur

Stillið ofn á 150°c. Setjið smjörpappír á ofnplötu og dreifið úr hnetunum og möndlunum og inn í ofn í 10 mín. Takið plötuna út og takið skinnið utan af heslihnetunum, setjið plötuna aftur inn í ofn í 5 mín. Á meðan er gott að vigta sykurinn og bræða á pönnu við meðal hita. Takið plötuna út og hellið bræddum sykri yfir hneturnar og leyfið að kólna.

Þegar sykurinn hefur kólnað eru allt sett í matvinnsluvél og leyft að blandast vel saman í 5-10 mín fer eftir hversu kraftmikil matvinnsluvélin er. Gott er að stoppa vélina reglulega og skafa niður og leyfa vélinni aðeins að kólna á meðan. Lokaáferðin er líkt og hnetusmjör að þykkt.

Pralín krem

150 g mjólk
1 msk vanillusykur
30 g sykur
2 eggjarauður
10 g maizena (maísmjöl)
50 g smjör
50 g pralín

Hitið mjólkina í potti yfir miðlungshita ásamt vanillusykrinum. Blandið eggjarauðum, sykri og maizena saman í skál og hrærið vel saman. Hellið mjólkinni í mjórri bunu saman við blönduna í skálinni og hrærið vel saman. Færið kremið ofan í pottinn aftur og stillið á miðlungshita. Hrærið og fylgist með þegar kremið þykknar en þá er það tekið af hellunni. Leyfið kreminu að kólna aðeins í pottinum og bætið síðan smjörinu saman við og hrærið vel.

Þegar kremið hefur kólnað er pralíninu blandað saman við og gott er að þeyta það jafnvel saman við í hrærivél til að fá smá loft í það. Ég sigtaði mitt krem til þess að taka stærstu hnetubitana úr og hafa það slétt en það er líka gott að hafa hneturnar í fyrir smá bit.

Vatnsdeig

250 ml vatn
100 g smjör
150 g hveiti
4 egg (220 g)

Stillið ofn á 200°c. Setjið vatn og smjör í pott og leyfið smjörinu að bráðna. Takið pottinn af hitanum og hrærið hveitinu saman við þar til deigið er orðið einn massi. Kælið deigið örlítið. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Teiknið 20 cm hring á smjörpappír og snúið pappírnum við og setjið á ofnplötu. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið deiginu í því munstri sem ykkur hentar á smjörpappírinn. Bakið á 200°c í 10 mín og lækkið niður í 180°c í 20 mínútur. Leyfið kransinum að kólna alveg.

Samsetning

Þegar að kremið er klárt og kransinn bakaður þá kemur að því að setja á kransinn. Skerið kransinn þvert, ég mæli með að nota riflaðan hníf í verkið. Svo ef þið eigið þunnt bretti eða diskamottu er gott að “slæda” henni undir efri partinn og færa yfir meðan sett er á neðri helming kransins.

Þeytið 300 ml rjóma og skerið súkkulaði niður en ég notaði rauðar Lindor kúlur að þessu sinni. Blandið súkkulaðinu saman við rjómann. Takið pralínkremið næst og setjið vænan skammt af því allan hringinn á kransinum, því næst er rjóminn settur yfir og ef þið eigið góða karamellusósu mæli ég með að drissla dálítið af henni yfir. Uppskrift af einni slíkri getið þið nálgast hér.

Næst setjið þið efri helminginn varlega yfir þann neðri. Skreytið af vild en ég bræddi Lindor kúlur og drisslaði yfir ásamt því að setja dálítinn flórsykur yfir en mér finnst hann alltaf skreyta svo fallega.


Kremið er svo milt og gott en ég gerði stærri uppskrift af því og hlakka til að þegar ég fæ einhverja baksturshugljómun og set það í einhverja góða uppskrift. Á meðan fær það að hanga í frystinum.

vatnsdeigskrans

You Might Also Like