Unnið í samstarfi við Gott í matinn
Það er eitthvað við hækkandi sól þá langar manni að fara að baka meira úr ferskum ávöxtum, svona léttari bakstur. Það leynast nokkrar sítrónu kökur og eftirréttir hér á síðunni og ég held hreinlega að þeir séu allir settir inn á þessum árstíma á milli ára.
En þessi dýrindis sítrónu og bláberja formkaka var virkilega góð. Mjúk, sæt og sítrónusúr glassúr ofan á, fullkomin með kaffibollanum út í sólinni á pallinum, allaveganna í huganum mínum!
Sítrónu og bláberja formkaka
200 g sykur
börkur af einni sítrónu
120 g smjör, brætt
2 egg
½ tsk salt
2 tsk lyftiduft
200 g hveiti
1 dl grísk jógúrt
1 tsk vanilludropar
2 msk sítrónusafi
2,5 dl bláber
Glassúr
2 dl flórsykur
2-3 msk sítrónusafi
Stillið ofn á 180°c. Setjið sykur í hrærivélarskál og rífið sítrónubörkinn saman við. Nuddið honum létt saman við sykurinn með fingrum. Bræðið þá smjör og blandið saman við sykurinn, hrærið í 3-5 mín saman þangað til að blandan er orðin ljós. Bætið þá eggjunum saman við einu í einu og hrærið vel.
Bætið þá salt, lyftidufti og hveiti saman við og hrærið. Þá er grísku jógúrtinni, vanilludropum og sítrónusafa bætt við og hrært saman.
Setjið bláberin í skál með smá hveiti og blandið saman með skeið þangað til að berin eru hjúpuð hveiti og bætið þeim saman við deigið og hrærið þeim saman með sleikju.
Setjið bökunarpappír í formkökuform og hellið deiginu í formið. Sléttið úr að því að ofan og setjið inn í ofn og bakið í 55-60 mín.
Gott er að stinga prjón eða hníf í kökuna og þegar prjóninn kemur hreinn út er kakan klár.
Blandið saman flórsykri og sítrónusafa og hellið yfir kökuna þegar hún hefur kólnað lítillega.
Njótið!
– Ert þú að fylgjast með á Instagram @dodlurogsmjor? –