Kökur

Gateau Marcel

January 5, 2020
döðlur og smjör

Þessi kaka er algjör draumur, ef þér finnst frönsk súkkulaði kaka góð þá verðurðu alls ekki fyrir vonbrigðum. Því Gateau Marcel er frönsk súkkulaði kaka bökuð, deigið gert aftur og sett yfir kalda kökuna sem krem- Algjörlega unaðslegt. Frábær eftirrétta kaka þar sem smá sneið með rjóma er allt sem þú þarft til að seðja sykurþörfina eftir góða máltíð.

Kakan fékk einmitt að fylgja Pavlovunni góðu með í jólaboð, þegar herramennirnir voru að hittast og borða steik og ætluðu að skella í Costco tertu eftir, bara kom ekki til greina! Svo þeir fengu eina létta og eina aðeins þyngri, til að svala þörfinni hvort sem það var eitthvað létt og sætt eftir mat eða smá súkkulaði víma.

Uppskriftin hér kemur upphaflega frá honum Hjalta Lýðssyni kondidormeistara sem ég tók viðtal við fyrir kökublað Gestgjafans árið 2016. Ég var dolfallin við fyrsta smakk, kakan var birt í blaðinu og ég hef gert hana reglulega síðan.

gateau marcel

Gateu Marcel

125 g súkkulaði, dökkt
125 g hrásykur
125 g smjör
75 g eggjarauður
100 g eggjahvítur
50 g flórsykur

Hitið ofn í 150°c. Bræðið saman súkkulaði, hrásykur og smjör í vatnsbaði. Hitið upp að u.þ.b. 70°c, þá er skálin tekin úr vatnsbaði. Eggjarauðunum er hellt saman við á meðan hrært er í. Látið standa í kæli í 15-20 mín. Þeytið saman eggjahvítur og flórsykur, þangað til stifþeytt. Smyrjið smelluform með smjöri. Blandið öllu varlega saman og bakið í 35-40 mín. Leyfið kökunni að kólna og þá er uppskriftin endurtekin, nema í þetta skipti er nýja deigið sett ofan á bökuðu kökuna. Setjið kökuna í frysti í 5 klst áður en formið er tekið.

Sigtið kakó yfir kökuna og skreytið með ferskum berjum, hindber passa sérstaklega vel með kökunni.

You Might Also Like