Sætir bitar

Súkkulaði bollakökur með ítölskum marengs

April 10, 2022
bollakökur

Hljóma fancy, en ítalski marengsinn er vandræðalega einfaldur að þessu sinni þar sem hann er úr pakka og einum dl af sjóðandi vatni blandað saman við, hrært í nokkrar mín og voila! Tilbúið – eiginlega vandræðalega einfalt.

En súkkulaðikökurnar eru sama uppskrift og ég nota oftast þegar ég geri veislukökur og leynast í hinum og þessum uppskriftum hér á síðunni. Að þessu sinni helmingaði ég uppskriftina og fékk úr því 20 bollakökur – maður þarf nefnilega ekki alltaf að vera að finna upp hjólið, heldur nota frekar skothelda grunna og leika sér svolítið með þá.

Myndirnar eru einstaklega vorlegar að þessu sinni en allt sem við sjáum á myndinni kemur úr verslunni BAST í Kringlunni, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og hægt að fá svo mikið af góðum bakstursvörum hjá þeim og ógrynni af fallegum munum fyrir heimilið.

bollakaka
bollakaka

Súkkulaðibollakökur

110 g hveiti
175 g sykur
40 g kakó
2 tsk matarsódi
80 g smjör, við stofuhita
120 g volgt vatn
2 egg
40 g olía
1 tsk vanilludropar
70 g ab mjólk/ súrmjólk

Stillið ofn á 175°c. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið örlítið saman. Bætið smjörinu saman við þurrefnin og hrærið saman þangað til að deigið líkist brauðmylsnu í áferð. Á meðan blandið saman kaffinu, vatni, eggjum, olíu og vanilludropum saman í skál og hrærið létt saman. Stillið hrærivélina á lága stillingu og hellið vökvanum saman við þurrefnin hægt og rólega. Þegar allur vökvinn er komin saman við mælið ab mjólkina og hellið saman við deigið og hrærið saman.

Setjið bollakökuform á ofnplötu og fyllið u.þ.b. hálf form af deigi, um 2 msk. Þegar að þið hafið fyllt öll formin, setjið inn í ofn í 13-15 mín. Leyfið kökunum að kólna.

Einfaldur ítalskur marengs

1 pk. Dr. Oetker Flødebolleskum
100 ml sjóðandi vatn

Setjið innihald pokans í hrærivélarskál og byrjið að þeyta. Hellið sjóðandi vatni í mjórri bunu saman við og þeytið þangað til marengsinn er orðinn stífur. Setjið hann þá í sprautupoka með stút af eigin vali en ég nota stóran stjörnustút hérna.

Sprautið á kökurnar og notið brennara til að brenna efsta lagið á marengsnum, má sleppa.

Það er ótrúlega auðvelt að leika sér með þessar kökur, taka miðjuna úr kökunum og fylla með hindberjasultu eða karamellusósu, gerir þær extra djúsí – mæli með að leyfa hugmyndarfluginu að njóta sín.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like