Kökur

Súkkulaðikaka með hindberjum og lakkrís

January 24, 2020
súkkulaðikaka

Þessi kaka er miklu uppáhaldi á mínu heimili og ég lofa því að þið eigið sko eftir að elska þessa! Allaveganna hefur hún alltaf slegið í gegn þar sem ég hef boðið upp á hana. Bakaði hana meðal annars fyrir þrítugs afmælið mitt fyrir ári síðan.

Hún varð til í hausnum á mér sumarið 2018, eftir að hafa verið á ferðalagi um Vestfirði með vinum og við vorum að hittast og snæða saman Hnallþóru svona eins og fólk gerir og mig langaði að prófa eitthvað nýtt. En þeir sem þekkja mig vita að ég ELSKA lakkrís, það er bara án efa langbesta nammið að mínu mati og hvað haldið þið að parist best saman við lakkrísinn- Hindber. Nei þetta er bara allra besta blandan. Ég fékk það meira að segja í gegn þegar ég starfaði hjá Kruðerí að það yrði gerð hindberja lakkrís makkarónur og mér varð að bóninni og ég get sagt ykkur það þær voru fáranlega góðar! Okey smá útúrdúr en já lakkrís og hindber, killer blanda.

En ég sem sagt skellti í tilraunastarfsemi og útkoman var þessi kaka, ég er mjög stolt af henni, hún er æðisleg. Ég baka hana alltaf reglulega við góð og gild tilefni og nú því það er bóndadagur og ég vil gleðja bóndana mína tvo, en teljast litlir herramenn heimilisins ekki örugglega líka til bónda?


Súkkulaðikaka- sú besta!

220 g hveiti
350 g sykur
80 g kakó
10 g matarsódi
165 g smjör, við stofuhita
1 tsk kaffi, instant
225 g volgt vatn
3 egg
80 g olía, hlutlaus
1-2 tsk vanilludropar
170 g ab mjólk/súrmjólk

Stillið ofn á 175°c. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið örlítið saman. Bætið smjörinu saman við þurrefnin og hrærið saman þangað til að deigið líkist brauðmylsnu í áferð. Á meðan blandið saman kaffinu, vatni, eggjum, olíu og vanilludropum saman í skál og hrærið létt saman. Stillið hrærivélina á lága stillingu og hellið vökvanum saman við þurrefnin hægt og rólega. Þegar allur vökvinn er komin saman við mælið ab mjólkina og hellið saman við deigið og hrærið saman.

Kakan er bökuð í 3×6″ formum (eða 2×8″), spreyið þau að innan með PAM spreyi eða smjöri. Gott er að setja bökunarpappír í botninn á formunum. Svo er gott er að vigta skálina sem er notuð fyrir en mín KitchenAid stálskál er nákvæmlega 806 g. Setjið skálina með deiginu á vigtina, dragið þyng skálarinnar frá og deilið í þrennt.

Bakið í 25-30 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn úr miðju kökunar.

Leyfið kökunum að kólna í 30-60 mín. Ég mæli svo með því að setja þær í plastfilmu og inn í ísskáp og leyfa þeim að kólna alveg þar. Takið þær svo fram þegar kemur að því að setja á þær krem.

Lakkrískrem

1 pokar Apollo piparfylltar reimar
100 g rjómasúkkulaði
1 dl rjómi

Setjið hráefnin saman í pott og látið malla á miðlungshita í 10-20 mín. Þar til að lakkrísinn er að mestu bráðnaður. Setjið í skál og leyfið að kólna, gott að setja inn í ísskáp í svolitla stund.

Hindberjasósa

1 dl hindber, frosin
2 msk sykur

Setjið hráefnin saman í pott og látið malla á miðlungshita í 3-5 mín. Passið að hafa ekki of háan hita.

Smjörkrem

250 g smjör, við stofuhita
500 g flórsykur (1 pk)
2 msk rjómi
1 tsk vanilludropar
50 g hvítt súkkulaði

Setjið smjörið í hrærivélina og hrærið smjörið eitt og sér í 3-4 mín, þangað til það er orðið létt og ljóst. Bætið flórsykrinum, rjóma og vanilludropum saman við og þeytið vel og vandlega saman. Eða þangað til það er orðið vel “flöffí” og ljóst. Bræðið súkkulaðið, leyfið að kólna lítillega og bætið saman við.

Samsetning

Setjið kökubotn á disk og dreifið smjörkremi yfir botnin og hafið kantinn örlítið hærri en miðjuna. Hellið lakkrískremi og hindberjasósu yfir smjörkremið og dreifið úr, skiljið eftir u.þ.b. 1 cm frá brún. Setjið næsta botn ofan á og endurtakið leikinn. Þriðji botninn er síðan settur á og kakan hjúpuð með restinni af kreminu.

Gott er að “crumb coat” kökuna eða setja þunnt lag af kremi jafnt yfir kökuna, jafna kremið út og setja í kæli í u.þ.b. 10 mín. Taka kökuna út og setja krem yfir hana alla og jafna vel út. Þetta kemur í veg fyrir að kökumylsnur fari í kremið og gerir yfirborð kökunar fallegra.

Notið svo hugmyndaflugið ykkar og skreytið kökuna að vild.


Að því ég að ég elska alltaf að fá góð ráð frá þeim sem nota hinar ýmsu græjur, þá langar mig að sýna ykkur formin sem ég nota. Þau eru frá Silverwood í Englandi og ég panta beint frá þeim. Mér hefur fundist erfitt að finna form á Íslandi sem kosta ekki handlegg, eru ekki smelluform og þessi eru með lausum botni sem mér finnst mjög þægilegt. Set link með hér.

You Might Also Like