Kökur

Þrista ostakaka

December 30, 2020
þrista ostakaka

– Unnið í samstarfi við Gott í matinn –

Það gengur náttúrulega eilítið Þrista æði yfir landann eða allaveganna hafa margir smakkað á hinni frægu Þrista mús upp á síðkastið. En ég skil þetta vel, Þristur er og verður eitt af mínu uppáhalds nammi og hefur verið leynihráefnið mitt í marengsinn minn í mörg ár. Ég þarf nú einmitt að fara að skella honum hingað inn!

En ég ákvað að skella í eina þristaköku og hvað betra en ostaköku! Svo létt og góð – Mild á bragðið en skoraði heldur betur fullt hús stiga í smökkun. Vindum okkur að þessu.

ostakaka

Botn

150 g smjör
300 g Digestive kex með rjómasúkkulaði
2 msk sykur
3 msk kakó
½ tsk salt

Bræðið smjör og setjið til hliðar. Setjið öll hin hráefnin saman í matvinnsluvél og malið vel saman Bætið þá smjörinu saman og setjið vélina í gang í stutta stund í viðbót. Einnig er hægt að setja kexið í plastpoka og lemja með kökukefli og blanda saman við restina af hráefnunum.

Notið form í stærðinni 20-24 cm, gott er að nota smelluform og setja pappír í botninn. Þrýstið blöndunni í botninn og setjið inn í kæli meðan ostakakan er gerð.

Ostakakan

250 g Þristar (5 stórir)
100 ml rjómi

375 ml rjómi
450 g rjómaostur
150 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
½ tsk salt

Brytjið Þristana niður og setjið í pott ásamt rjóma og stillið á lága til miðlungs stillingu. Bræðið saman og leyfið að kólna lítillega.

Þeytið rjómann og setjið í skál til hliðar. Setjið þá rjómaost og flórsykur í skál og þeytið í 2-3 mín, þangað til hann er orðinn léttur í sér (óþarfi að þvo skál á milli). Bætið saman vanilludropum og salti saman við og setjið vélina í gang, þá hellið þið þristablöndunni saman við hægt og rólega meðan vélin gengur.

Þá er rjómanum blandað saman við og er það gert með því að setja helminginn af rjómanum saman við blönduna og hrært varlega saman með sleikju. Restinni er svo bætt saman við og klárað að hræra saman.

Takið botninn úr kæli og setjið ostakökuna yfir, dreifið vel úr og sléttið og setjið inn í kæli. Gott er að leyfa kökunni að vera í kæli í 2-3 tíma áður en hún er borin fram.

Tilvalið að bera fram með ferskum berjum, súkkulaðisósu eða jafnvel fullkomna þetta með smá lakkríssósu!

Njótið!

– Fylgstu endilega einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like