Bakstur/ Í útileguna/ Sætir bitar

Banana & kaffi muffins

July 9, 2020
muffins

Við þekkjum öll klassísku íslensku muffins kökurnar, sem hafa verið bakaðar í hundraðatali á hverju heimili. Standa alltaf fyrir sínu. Muffins kökur hafa verið í mikilli lægð undanfarin ár, að mínu mati. Eru þið ekki sammála? Fengu dálítið að víkja fyrir bollakökunum.

muffins

En ég held að tími þeirra sé komin á ný. Allaveganna ef þið spyrjið móðir mína sem hefur bakað og bakað muffins á þessu ári, enda klárast þær alltaf jafnóðum og renna ljúft niður hjá litlum sem stórum.

Hún sendi mér uppskriftina sína og ég ætlaði upphaflega bara að fylgja uppskriftinni og setja inn en auðvitað þurfti ég að skipta mér af uppskriftinni og breyta henni eftir mínu höfði, bætti smá svona og gerði aðeins öðruvísi og allt í einu komin með allt aðrar kökur sem fengu fullt hús stiga.

Þessar eru frábært að gera núna þegar allir eru að detta í sumarfrí og að fara ferðast innanlands – baka og taka með í útileguna.

muffins

Banana & kaffi muffins -25 stk

220 g smjör, við stofuhita
50 g sykur
100 g púðursykur
3 egg
300 g hveiti
½  tsk salt
1 tsk matarsódi
1 tsk vanilludropar
1 dós kaffi jógúrt
1 banani
150 g Karamellu kurl frá Nóa Siríus

Hitið ofn í 180°c. Þeytið saman smjör og sykur í 2-3 mín. Bætið eggjunum saman við einu í einu.

Þurrefnunum er blandað saman við, gott er að hræra aðeins í skálinni með sleikju svo þurrefnin frussist ekki út um allt. Bætið síðan vanilludropum út í ásamt jógúrti og stöppuðum banana og hrærið vel saman. Þegar allt er komið saman bætið þá karamellukurlinu saman við og hrærið létt saman við.

Raðið formunum á bökunarplötu, gott er að spreyja þau létt að innan með bökunarspreyi en má sleppa. Setjið 2 msk af deigi í hvert form en form eru ólík og passið að yfirfylla þau ekki.

Setjið inn í ofn og bakið í 10-12 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn út þegar honum er stungið í miðjuna. Takið út og leyfið að kólna. Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like