Kökur

Hindberjasnittur

October 21, 2022
hindberjasnittur

Ég bý með tveimur sultu köllum, þeir elska sultu og allt sultu sætabrauð og hvað haldið þið þetta sló algjörlega í gegn hjá þeim. Hún er dásamlega bragðgóð og einföld. Svolítið eins og sítrónukaka með hindberjasultu. Hætt að lýsa henni, mæli bara með að þið prófið!

Giska á að sumir spyrja sig hvar maður fær birkifræ en þau eru yfirleitt í baksturdeildinni frá Kötlu en einnig er hægt að fá það í búðum eins og Sostrene grene.

hindberjasnittur

Hindberjasnittur

180 g smjör
250 g sykur
börkur af einni sítrónu
60 ml olía
4 egg
1 tsk vanilludropar
400 g hveiti
2 tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
4 msk birkifræ
2 msk sítrónusafi
300 ml ab mjólk/súrmjólk

Stillið ofn á 175°c. Þeytið saman smjör og sykur í 2-3 mín, blandið þá eggjunum saman við einu í einu. Þá er börkurinn af einni sítrónu raspaður saman við ásamt olíu.

Bætið þá þurrefnunum saman við og hrærið hægt saman. Þegar þau eru orðin samblönduð deiginu bætið sítrónusafa og ab mjólk/súrmjólk saman við. Forðist það að hræra of mikið, bara koma deiginu saman.

Setjið í bökunarpappír í form og spreyið með PAM spreyi, ég var með 30×20 cm eldfast mót og skar svo kökuna þvert eftir bakstur. Einnig er hægt að nota djúpa bökunarplötu og baka í styttri tíma, skera í tvo helminga og leggja þannig saman. Bakið í 35-40 mín.

Samsetning

1 krukka hindberjasulta

200 g smjör, við stofuhita
300 g flórsykur
50 g hvítt súkkulaði
1 tsk vanilludropar
2 msk rjómi
bleikur matarlitur

Byrjið á því að þeyta smjörið í 1-2 mín og bætið flórsykrinum saman við. Bræðir súkkulaðið og blandið því saman við í mjórri bunu. Setjið vanilludropa saman við ásamt rjóma og matarlit og þeytið vel.

Skerið kökuna til svo þið hafið tvo botna, dreifið hindberjasultunni yfir annan botninn og leggið hinn yfir. Dreifið þá úr smjörkreminu yfir efri helminginn með sleikju. Skerið í bita og berið fram.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like