– Unnið í samstarfi við Gerum daginn girnilegan –
Eins og það er gaman að gera flóknar kökur með fallegum skreytingum, þá er eitthvað við það að henda í kökur sem eru tilbúnar á stuttum tíma og eru hreinlega frábærar á bragðið.
Þessar eru dæmi um það, taka enga stund að gera – þarf ekki að láta deigið kælast heldur bara beint inn í ofn. Þú getur fengið símhringinguna um að frænka sé á leið í heimsókn og á 30 mín geta þessar verið komnar út úr ofninum og tilbúnar með kaffinu. Algjör snilld!
Fólk skiptist oft í tvo hópa hvað varðar smákökur stökkar eða mjúkar, ég er vanalega í stökka hópnum en þessar eru mjúkar og mér finnst þær dásamlegar.
Svo er það leynihráefnið Kókos So vegan so fine sem ég fæ ekki nóg af, elska að setja það t.d á amerískar pönnukökur. Ég mæli svo með því á það alltaf til.
Kókos & hafrakökur – 12 stk-
100 g smjör, mjúkt
100 g púðursykur
100 So vegan so fine kókossmyrja
1 egg
100 g haframjöl
100 g hveiti
50 g kókosmjöl
1 tsk vanilludropar
½ tsk matarsódi
¼ tsk salt
Stillið ofn á 175°c. Þeytið saman smjör, púðursykur og kókossmyrjuna í 1-2 mín. Bætið þá eggi saman við og þeytið aftur. Blandið þá öllum þurrefnunum saman við og blandið þangað til allt er orðið samlagað.
Þar sem þið eruð með vigtina við höndina er skemmtilegast að vigta kökurnar svo þær verði jafnar, hver um sig á bilinu 40-50 g. Annars er einnig hægt að nota tvær matskeiðar. Mótið í kúlu og dreifið á tvær bökunarpappírs klæddar plötur.
Bakið í 10-12 mín. Leyfið að kólna.
Njótið!
– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –