Kökur

Kryddkaka með eplum & karamellu

July 15, 2020
kryddkaka

Það er ótrúlegt hvað veðrið stjórnar miklu hjá manni, þegar sólin skín þá langar manni í eitthvað létt og ferskt en þegar það koma þungir rigningardagar, langar manni bara í eitthvað meira kósý mat. Það var ekkert endilega hugmyndin að gera eitthvað í þá áttina svona á hápunkti sumarsins. En kakan varð til og er ótrúlega bragðgóð.

Kryddkaka tekin á næsta level, borin fram með eplafyllingu og karamellukremi – Dásamlegt!

kryddkaka

Gott er að taka fram að hægt er að gera kökuna alveg frá grunni, eplafyllinguna og karamelluna en það er einnig hægt að stytta sér leið og kaupa tilbúið eplamauk og karamellusósu. Styttir aðeins ferlið og ég lofa að hún verður alveg eins dásamleg.

Kryddin sem fara í kökuna eru öll í kryddformi og fást í öllum helstu verslunum, við erum ekkert að flækja lífið með því að skera niður engifer eða rífa niður múskatið. Þetta eru allt krydd sem er svo gott að eiga fyrir allskyns baksturs og matar tilefni og þau endast og endast.

kryddkaka

Kryddkakan

170 g smjör, við stofuhita
300 g púðursykur
3 egg
280 g hveiti
2 tsk lyftiduft
2 tsk kanill
¼ tsk negull
½ tsk engifer
1 tsk múskat
1 ½ tsk vanilludropar
250 ml ab mjólk/súrmjólk

Stillið ofn á 175°c.

Þeytið saman smjöri og púðursykri í 3-4 mín. Blandið eggjunum saman við einu í einu. Meðan það hrærist saman setjið þurrefnin saman í aðra skál og blandið svo varlega saman við deigið. Þegar þurrefnunum hefur verið blandað saman við, bætið út í vanilludropunum og ab mjólkinni og hrærið saman.

Deilið deiginu jafnt í þrjú 6″ form (15 cm) sem búið er að spreyja að innan með baksturspreyi eða smjöri. Einnig er hægt að deila deiginu í tvö 20 cm form. Setjið inn í ofn og bakið í 30-35 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn út úr miðju kökunar.

Leyfið kökunum að kólna í 5-10 mín í formunum, snúið þá kökunum við á bretti eða flöt sem þolir hita og leyfið að hvíla í smá stund. Síðan er gott að taka hvern botn fyrir sig og plasta og setja inn í ísskáp og leyfa þeim að kólna alveg.

Eplafylling

1 epli
1 msk sykur
50 ml vatn

Flysjið eplið og kjarnhreinsið og setjið í pott ásamt sykri og vatni. Sjóðið eplið yfir miðlungshita í 5-10 mín. Takið af hitanum og leyfið að kólna.

Karamellusósu

100 g sykur
45 g smjör
60 ml rjómi

Setjið sykurinn í pott og stillið á miðlungshita. Leyfið sykrinum að bráðna. Ég reyni að hræra sem minnst í sykrinun til að karamellan kristallist síður. Þegar sykurinn er bráðnaður, takið pottinn af hitanum og bætið smjörinu saman við og hrærið á meðan. Þegar smjörið og sykurinn hafa blandast saman hellið rjómanum í mjórri bunu saman við. Ef hráefnin eru köld þarf mögulega að setja pottinn aftur á helluna og leyfa karamellunni að sjóða í smá stund í viðbót eða þangað til allt er vel samblandað. Bætið teskeið af salti saman við í lokin.

Smjörkrem

250 g smjör, við stofuhita
500 g flórsykur
3-4 msk rjómi
1 tsk vanilludropar
50-100 g karamellusósa, eftir smekk

Setjið smjörið í hrærivél og þeytið vel, bætið svo flórsykri, rjóma og vanilludropum saman við og þeytið vel, þá meina ég rosalega vel til að það verði létt og ljúft. Þegar kremið er tilbúið bætið þá karamellusósunni saman við og þeytið saman.

Samsetning

Takið botnana úr kæli og úr plastinu. Setjið fyrsta botninn á disk og setjið vænan skammt af kremi ofan á og dreifið yfir, gott er að hafa kremið þykkara í kantinum. Setjið 2-3 msk af eplafyllingu ofan á kremið og dreifið úr því. Setjið næsta botn ofan á og endurtakið. Þriðji botninn settur á og þunnu lagi af kremi dreift yfir alla kökuna til að loka alla mylsnu inni, setjið kökuna i kæli í nokkrar mínútur.

Takið kökuna úr kælinum og dreifið meiri kremi á kökuna eins mikið og ykkur lystir. Ég leyfði minni köku að vera dálítið “rustic” var sem sagt lítið að slétta kremið og skreytti svo toppinn með auka kreminu, kanilstöngum og setti kanil á hnífsodd og blés á. En endilega leyfið hugmyndarfluginu að njóta sín og skreytið að vild.

Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like