Sætir bitar

Sykurpúðar

November 25, 2021
sykurpúðar

Það kom mér smá á óvart þegar ég var að segja fólkinu í kringum mig að ég væri að gera sykurpúða á dögunum að það komu allir af fjöllum hvernig maður gerir þá. En ótrúlegt en satt þá er ótrúlega einfalt að gera sykurpúða og þeir ekki fullir af allskonar aukaefnum sem við vitum ekkert hvað er. Vissulega ekki heilsufæði en stundum má aðeins!

Geggjaðir beint í munn, í heitt kakó, grillaðir eða sem skraut á köku í staðinn fyrir marengs skraut. Ég hvet ykkur svo sannarlega til að prófa – ótrúlega gaman að gera stundum frá grunni.


Sykurpúðar

150 g sykur
80 g Caro light corn syrop (fæst í Hagkaup)
80 ml vatn
4 matarlímsblöð
2 eggjahvítur
2 tsk vanilludropar
Flórsykur til hjúpunar

Setjið saman í pott sykur, sýróp og vatn og sjóðið á lágum til miðlungshita í 5-10 mín eða þangað til að það er farið að þykkna örlítið. Látið matarlímsblöðin í kalt vatn á meðan.

Stífþeytið eggjahvíturnar, þegar sýrópið er klárt, hristið þá kalda vatnið af matarlímsblöðunum og blandið saman við sýrópið hellið því síðan saman við eggjahvíturnar í mjórri bunu á hægri stillingu á hrærivélinni. Bætið vanilludropum saman við og aukið hraðann og þeytið í u.þ.b. 5 mín eða þangað til að skálin er farin að kólna verulega og blandan farin að þykkna.

Hér tiltek ég tvær aðferðir til þess að gera sykurpúðana. Annars vegar að finna form, getur verið bakstursform eða eldfast mót. Stráið vel af flórsykri í mótið og hellið allri blöndunni í mótið og sléttið úr. Leyfið að kólna og taka sig í nokkrar klst. Takið þá stóra sykurpúðann í heilu upp úr og setjið á skurðarbretti með nóg af flórsykri á. Skerið sykurpúðana í þá stærð sem þið óskið ykkur og veltið þeim upp úr flórsykri svo þeir klístrist ekki við.

Annars vegar setjið nóg af flórsykri á bökunarpappír og blönduna í sprautupoka með stjörnustút á. Sprautið staka sykurpúða yfir bökunarpappírinn og leyfið að standa og taka sig í nokkrar klst. Takið af bökunarpappírnum með hníf eða spaða og veltið upp úr meiri flórsykri.

Geymið sykurpúðana í lokuðu íláti.

Njótið!

– Fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like