Ég er ekki frá því að þetta sé páska-tísku-baksturinn í ár, kanínu eyru. Ég var búin að rekast á færslu á pinterest sem sýndi svona kexbotna með kremi í þessu formi og langaði að prófa að nota skapalóns hugmyndina en í öðru köku formi. Mér fannst marengs mjög hentugur í þetta þar sem auðvelt er að móta hann eftir hentileika og svo er hann bara svo góður og hægt að útfæra á marga vegu.
Ég bakaði marengsinn fyrir nokkrum dögum og frá því að ég bakaði hann hef ég séð tvær skemmtilegar útfærslur af svona kanínueyrum frá íslenskum bloggurum annars vegur úr súkkulaði brúnku og hins vegar svona ljós kaka.
En allar útfærslur skemmtilegar og ábyggilega mjög bragðgóðar. En marengsinn minn að þessu sinni er fylltur með sítrónusmjörs (lemon curd) rjóma, hindberjum og súkkulaðisósu. Stundum er less is more og það var algjörlega málið hér. Rjóminn verður svo bragðgóður að hann þarf svo lítið með sér svo smá súkkulaðisósa og ber og þetta smellur allt svo vel saman!
Ég mæli hiklaust með þessari uppskrift, hún getur verið skemmtilegur fjölskyldueftirréttur um páskana um að gera að leyfa krökkunum að skreyta kanínuna og hægt að gera deginum áður eða að morgni til t.d. – Svo ekki mikla þetta fyrir ykkur, mjög einfalt í framkvæmd.
Skapalón
Til að ná marensnum í laginu eins og kanínuhaus gerði ég eftirfarandi: Tók tvær arkir af bökunarpappír og Kitchen Aid skálina mína og lagði á pappír og gerði hring. Mælið 3 cm sem er á milli eyrnanna og merkið. Takið skálina aftur og notið merkinguna til að gera hálfhring færið skálina og gerið hálfhring á móti, takið síðan litla skál og gerið hringinn inn í. Leggið hinn pappírinn ofan á og dragið línurnar í gegn til að fá tvö alveg eins skapalón.
Marengs
3 eggjahvítur
220 g sykur
1 tsk vanilludropar
1 tsk edik
salt á hnífsoddi
Stillið ofn á 150°c. Þeytið eggjahvíturnar í 1-2 mín. Bætið restinni af hráefnunum saman við og þeytið þangað til marengs er orðinn stífur, að hægt sé að hvolfa skálinni. Setjið marensinn í sprautupoka án stúts. Sprautið eftir munstrinu. Hringinn fyrst svo beint í miðjuna á eyrunum og síðan sitthvoru megin. Sléttið úr marengsnum með spaða. Setjið inn í ofn í 50 mín. Leyfið að kólna áður en fyllingin er sett á.
Sítrónusmjör
40 g sítrónusafi
1 tsk sítrónubörkur
20 g smjör, við stofuhita
1 egg, við stofuhita
1 eggjarauða
55 g sykur
Allt sett í blandara og blandað saman þangað til að öll hráefnin hafa blandast vel saman, það á það til að skilja sig í upphafi þá er bara að halda áfram að blanda þangað til allt er rennislétt. Þá er blandan sett í pott á lágan hita og hrært í öðru hverju. Eftir smá tíma fara að myndast þykkar búbblur sem segir til að það er byrjað að þykkna, hrærið aðeins og takið svo af hellunni og hellið í hreint ílát og leyfið að kólna.
Fylling
500 ml rjómi
sítrónusmjör
2-3 msk súkkulaðisósa
1 askja hindber
Þeytið rjómann og blandið sítrónusmjörinu saman við. Setjið í sprautupoka með hringlaga stút á, það er líka nóg að klippa endann af pokanum og sprauta án stúts. Setjið neðri botninn á disk og snúið botninum upp. Sprautið rjóma doppur meðfram brúnunum og fyllið léttilega inn í óþarfi að gera doppur þar. Dreyfið helmingnum af hindberjum yfir rjómann og sprautið súkkulaðisósu yfir (nota tilbúna sósu en Kjörís sósurnar eru mjög góðar). Leggið síðan seinni marengsinn varlega ofan á og sprautið doppur á hann allan.
Skreytið síðan með M&M páskaeggjum (fást í Krónunni og Hagkaup), hindberjum, litlum páskaeggjum, ferskum blómum eða því sem hugurinn girnist.
Gott er að gera marengsinn kvöldi áður en hann er borinn fram eða um morgun ef hann er borinn fram að kvöldi, þá fær marengsinn aðeins að mýkjast og blandast rjómanum betur, verður alveg unaðslegt.