Kökur

Sjónvarpskaka með eplum & höfrum

August 14, 2020
sjónvarpskaka

Þessi vika hefur verið mjög óhefðbundin, róleg og búin að kenna manni aðeins að sýna þolinmæði. Ég þurfti að fara í óvænta aðgerð á föstudaginn síðasta án fyrirvara sem gerði það að verkum að ég hef verið að koma mér á fætur hægt og rólega. Viku seinna er ég öll að koma til.

Þetta þýðir að ég er búin að vera meir og minna í rólegheitum heima hjá mér, unnið úr tölvunni, skjátíminn minn í símanum jókst örlítið og ég búin að skoða ógrynni á pinterest og fleiri stöðum þar sem ég sæki innblástur fyrir heimilið, matseldina og bara allt það helsta í lífinu.

En ég tók mig til og skellti í tvær nýjar kökur í vikunni, einfaldar og góðar en þar kom þolinmæðin inn í myndina að ég þurfti bókstaflega að leggja mig meðan þær voru í ofninum og bara taka því rólega og þetta var bókstaflega afrek hvorn daginn fyrir sig. En vá hvað fólkið mitt var ánægt með afraksturinn, já og ég líka!

sjónvarpskaka

En ég hef alltaf verið svo hrifin af sjónvarpskökum, alltaf jafn dásamlegar á bragðið. Svo mig langaði að sjá hvort það væri ekki hægt að breyta aðeins út af vananum og poppa hana lítilega upp. Svo ég ákvað í grunninn að bæta við hana eplum og höfrum, góð hugmynd? Heldur betur!

Kakan varð svo mjúk og góð, eplin gáfu dásamlegt bragð, áferð og tónaði svo vel með karamellunni á toppnum sem fékk smá fusion með höfrunum saman við. Sem var svo gott. Ég mæli svo sannarlega að þið prófið þessa.

Mér þykir alltaf gaman að sjá afraksturinn ykkur – Skildu endilega eftir skilaboð hér á færslunni eða taktu mynd og taggaðu mig á Instagram @dodlurogsmjor svo ég sjái afraksturinn.

Sjónvarpskaka

4 egg
250 g sykur
2 tsk vanilludropar
300 g hveiti
2 tsk lyftiduft
200 ml mjólk
50 g smjör
3 epli

Stillið ofn á 175°c. Þeytið saman egg, sykur og vaniludropa þangað til létt og ljóst. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið varlega saman. Bræðið smjör í örbylgju eða í potti og bætið saman við deigið ásamt mjólkinni og blandið deigið saman.

Skrælið utan af eplunum og skerið í sneiðar eða bita. Ég mæli með að skera í litla bita.

Hægt er að nota ólík form í þessa köku, ég mæli með 20 cm eða stærri. Hér notaði ég u.þ.b. 26 cm grunnt form en einnig er hægt að hafa hana hærri en minni um sig.

Spreyjið formið að innan með olíuspreyi eða smjöri, hellið tveim þriðju af deginu í formið, dreifið úr eplunum og hellið síðan restinni af deiginu yfir. Setjið inn í ofn og bakið í 20 mín, síðan er toppurinn settur á og aftur inn í ofn í 15 mín)

Toppur

250 g púðursykur
150 g smjör
150 g kókos
50 g hafrar
100 ml mjólk
½ tsk salt

Setji öll hráefnin saman í pott og bræðið sykurinn og smjörið við miðlungshita. Þegar kakan hefur verið inn í ofni í 20 mín, takið kökuna út úr ofninum og setjið toppinn ofan á varlega. Ég mæli með að setja hann á með sleikju, eina sleikju í einu. Annars er hætt við því að kakan gefi sig og allur toppurinn sekkur ofan í kökuna. Kemur ekki að sök í bragði en verður dálítið skrautleg í útliti.

Setjið kökuna aftur inn í ofn og bakið í 15 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn úr miðju kökunar.

Þessi kaka er þannig að hún verður eiginlega betri daginn eftir bakstur, þá hefur karamellan náð að blandast saman við kökuna sjálfa og hún orðin enn meira djúsí en þegar hún kom úr ofninum.

Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like