– Unnið í samstarfi við Gerum daginn girnilegan –
Ég verð náttúrulega að byrja á því að segja að ég fékk heldur betur blauta tusku í andlitið frá allra besta, þegar hann leiðrétti mig á Instragram að Dumle heitir ekki Dumble eins og ég haft alltaf sagt og alltaf haldið fram að þetta dásamlega karamellu súkkulaði heitir! Hvernig væri nú að lesa á pakkningarnar Guðrún. En mér til varnar fékk helling af skilaboðum þar sem mér var sagt að ég væri alls ekki sú eina sem hefði haldið þetta, en ég gleymi því allaveganna ekki héðan í frá!
En aðeins að kökunni sjálfri, það styttist í páskana og þá er um að gera að gefa ykkur hugmyndir af girnilegum kökum, desertum og einhverju góðu gúmmelaði sem þið getið bakað fyrir páskana sjálfa. Þessi væri dásamleg í fjölskyldu brunch eða bara við öll þau tækifæri sem manni langar í góða köku.
Þétt og góð súkkulaðikaka pöruð saman með bökuðum eplum í fyllingunni og til að toppa allt dásamlegt Dumle smjörkrem, ég lofa að þessi klikkar ekki! Gangi ykkur vel í bakstrinum!
Súkkulaðikaka
250 g hveiti
400 g sykur
80 g kakó
2 tsk matarsódi
½ tsk lyftiduft
1 tsk salt
250 ml mjólk
120 ml olía
2 egg
2 tsk vanilludropar
200 ml sjóðandi heitt vatn
Stillið ofn á 175°c, blástur. Vigtið þurrefnin og setjið saman í hrærivélarskál. Mælið síðan blautu hráefnin saman í skál eða könnu, allt fyrir utan sjóðandi heita vatnið.
Hrærið létt í því, setjið síðan hrærivélina af stað á lágri stillingu og hellið blautu hráefnunum varlega saman við þau þurru. Leyfið þessu að hrærast vel saman og hellið síðan vatninu saman við rólega í lokin.
Takið til þrjú 15 cm form eða tvö 20 cm form og spreyið að innan með PAM spreyi eða nuddið að innan með smjöri, deilið síðan deiginu jafnt á milli formanna. Setjið inn í ofn og bakið í 30-35 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn úr miðju kökunnar. Takið út úr ofninum og leyfið að kólna alveg.
Eplafylling
2 epli
1 msk sítrónusafi
2 msk púðursykur
1 tsk kanill
smá salt
smá múskat (má sleppa)
50 ml vatn
Takið hýðið utan af eplinu og skerið í litla bita. Setjið eplin ásamt hinum hráefnunum í pott og sjóðið yfir miðlungshita í 5-10 mín. Eplin eiga ekki að vera mauksoðin heldur hafa ennþá smá bit í sér.
Leggið til hliðar og leyfið að kólna.
Dumle smjörkrem
200 g Dumle súkkulaðiplötur
50 ml rjómi
300 g smjör
500 g flórsykur
3 msk rjómi
Byrjið á því að brjóta súkkulaðið niður og setið skál ásamt rjómanum. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði á meðalhita, þ.e. vatn sett í pott og skálin yfir pottinn. Leggið síðan blönduna til hliðar, til að leyfa henni að kólna.
Setjið smjör í hrærivél og leyfið að þeytast í 2-3 mín, bætið síðan flórsykrinum rólega saman við ásamt rjómanum. Haldið áfram að þeyta vel og bætið síðan súkkulaðinu saman við og kremið þeytt í nokkrar mín. í viðbót.
Áður en kremið er sett á er gott að fara með sleikju meðfram skálinni og passa að allt sé vel blandað saman og renna í gegnum kremið með sleikjunni, til að losa loftið úr kreminu sem gefur því fallegri áferð þegar það er sett á kökuna.
Samsetning
Gott er að baka kökurnar daginn áður en þær eru samsettar og skreyttar, það er heldur ekkert síðra að baka kökurnar tímalega vefja þær í plast og setja í frysti þangað til þær eru notaðar.
Setjið fyrsta botninn á disk og svona u.þ.b dl af kremi ofan á botninn, dreifið vel úr kreminu og setjið yfir það helming af eplafyllingunni, passið að setja fyllinguna ekki of nálægt brúnum. Þá er næsti botn settur ofan á ferlið endurtekið. Þriðji botninn er settur ofan á og restin af kreminu sett á kökuna og dreift vel úr kreminu.
Til að fá slétta áferð á kremið er gott að fara þunna umferð og skrapa vel af kökunni og setja í kæli í stutta stund. Kakan er svo tekin út og önnur umferð af kremi sett á hana, slétt vel úr kreminu og kakan skreytt eftir eigin löngun. Að þessu sinni skreytti ég kökuna með ferskum jarðaberjum og þunnt skornum eplum.
Njótið!
– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –