Sætir bitar

Rabarbara ís með hvítu súkkulaði og kexmulningi

June 15, 2021
rabarbaraís

– Unnið í samstarfi við Gott í matinn –

Nú er fyrsta uppspretta rabarbarans að skila sér og mér persónulega finnst alltaf mjög gaman að prófa mig áfram með rabbabarann. Vissulega eru komnar krukkur af rabarbarasultu inn í ísskáp og mér finnst líka frábært að skera hann niður og frysta hann svo ég geti notað hann seinna í sumar eða í haust.

En mér datt í hug að útbúa ís með fyrstu uppskerunni úr okkar garði og útkoman var frábær. Ísinn er þéttur í sér og minnir dálítið á frosna ostaköku með dýrindis rabarbarabragði og kexið gerir svo mikið fyrir hann – Mjög ánægð með þessa útkomu, svo ef ykkur langar að prófa að gera eitthvað nýtt úr rabarbaranum ykkar þá mæli ég svo sannarlega með þessum ís!

Þið finnið oft niðursoðnu mjólkina í asísku deildinni í matvöru verslunum


Rabarbara mauk

400 g rabarbari
50 sykur

Stillið ofn á 180°c. Skerið rabarbarann gróflega niður í eldfast mót og stráið sykri yfir, setjið álpappír yfir og inn í ofn í 20-30 mín.

Kex

75 g smjör
50 g sykur
100 g hveiti

Setjið hráefnin saman í skál og blandið saman með höndunum. Setjið deigið á bökunarpappírs klædda ofnplötu. Gerið bara litla bita og dreifið yfir plötuna. Hér þarf enga nákvæmni. Setjið inn í ofn með rabarbaranum og bakið í u.þ.b. 15 mín.

Takið síðan rabarbarann og kexið út og leyfið að kólna.

Súkkulaði ganache

50 g hvítt súkkulaði
25 g rjómi

Súkkulaði og rjómi sett saman í skál inn í örbylgjuofn eða yfir vatnsbaði og brætt saman.

Ís

500 ml rjómi
350 ml niðursoðin mjólk (condensed milk)
2 tsk vanilludropar

Setjið rjóma, niðursoðnu mjólkina og vanilludropa saman í hrærivél og hrærið þangað til blandan er léttþeytt, heldur formi en ekki líkt og stífþeyttur rjómi. Blandið þá rabarbara maukinu saman við, gott er að skilja um 2-3 msk eftir til að setja ofan á ísinn í lokinn.

Samsetning

Takið helming af ísnum og setjið í form eða box með loki og dreifið vel úr ísnum. Hellið þá súkkulaðinu yfir ísinn og dreifið aðeins úr því. Þá takið þið helminginn af kexinu og brjótið niður í u.þ.b. munnbita og dreifið yfir ísinn.

Þá er restinni af ísnum dreift yfir og kexinu dreift yfir ásamt auka rabbabaramaukinu sem fallegt er að dreifa úr með hníf eða prjón til að fá smá áferð í ísinn.

Setjið lokið á boxið eða plastfilmu yfir formið og setjið í frysti í minnst 4-6 tíma.

Þegar ísinn er borinn fram er gott að taka hann úr frysti og leyfa honum að þiðna í 20-25 mín.

Njótið!

– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like