Bakstur/ Kökur/ Sætir bitar

Karamellu og kaffi bollakökur

January 29, 2020
bollakökur

Er maður ekki alltaf að leitast eftir að para brögð saman sem manni þykja góð, sumt virkar og sumt passar bara alls ekki saman. Góða við karamellu er að hún virðist passa með svo ofboðslega mörgu. Hægt er að para hana saman við ávexti í léttan eftirrétt en á sama tíma passar hún svo vel með súkkulaði og kaffi í þyngri réttum.

Svo að þessu sinni pörum við saman karamellu og kaffi – Það fær mig til að hugsa til tímans sem ég drakk ekki kaffi án þess að hlutfallið í kaffinu var u.þ.b. einn hluti karmellusíróp, einn hluti soja mjólk og svo einn hluti kaffi. Þannig hófst kaffidrykkjan mín í London árið 2008 og á hún Valdís vinkona mín allan heiður að því að ég byrjaði að drekka þetta karmellusoja sull á sínum tíma, en ferðir okkar á Costa voru ófáar. Enda hafa kaffistundir okkar verið þónokkuð margar í gegnum árin. Kaffið hefur þó orðið svartara með árunum og nú þykir mér það bara best bikarsvart úr uppáhellingarkönnu.

En aftur að uppskriftinni, þá eru þetta frábærar kökur til að skella í fyrir saumaklúbbinn eða sunnudagsbrönsinn því þær taka enga stund að búa til og í þessu kalda veðri sem er búið að vera er bara að skella þeim út í 10 mín og þær eru orðnar kaldar og tilbúnar fyrir krem á núll einni. Njótið!


Kaffi Bollakökur

150 g sykur
1 egg
120 g hveiti
50 g kakó
½ tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
½ tsk salt
1 tsk vanilludropar
70 ml olía
50 ml mjólk, volg
100 ml kaffi, volgt

Stillið ofn á 170°c. Hrærið saman sykur og egg þangað til létt og ljóst. Bætið þurrefnunum og olíu saman við og hrærið varlega saman. Hellið mjólk og kaffi saman við meðan hrærirvélin keyrir á lágri stillingu. Passið að ekkert sitji eftir í botninum á skálinni.

Setjið form á bökunarplötu en uppskriftin gerir ráð fyrir 12-14 stk. Fyllið hvert form til hálfs og setjið inn í ofn í 12-15 mín. Leyfið kökunum að kólna.

Krem

200 g smjör, við stofuhita
70 g kókospálmsykur
150 g rjómaostur, við stofuhita
1 tsk vanilludropar
50 g karamella, fljótandi

Blandið smjöri og sykri saman í hrærivél og þeytið vel saman. Bætið saman við rjómaosti og þeytið þangað til hráefnin hafa blandast vel saman. Bætið þá út í vanilludropum og karamellu en ég mæli með að nota “Dulce de Leche” eða karamellusósuna frá Kjörís. Hrærið allt vel saman í 1-2 mín og setjið í sprautupoka og sprautið á bollakökurnar. 

Það er ekki nauðsyn að nota kókospálmssykur í kremið en mæli með sykri sem er aðeins bragðsterkari en hvítur sykur líkt og púðursykur eða muscovado sykur, eiginlega það sem þið eigið við hendi.

Skreytið eins og hugurinn girnist.

You Might Also Like