Ég smakkaði nýja KEA karamelluskyrið á dögunum og vá hvað mér fannst það gott. En þar sem ég er ekki mikil skyr manneskja finnst mér eiginlega betra að borða það sem desert heldur en millimál. Svo úr varð þessi skemmtilegi létti desert.
Karamella og pera parast svo vel saman að mínu áliti og er svo milt og gott saman. Ég tók mig einnig til og brenndi smjörið sem blandast við kexið til að fá meiri karamellukeim á það. Það er ekkert mál bara að bræða smjör líkt og vanalega er gert með skyrkökur en þetta gefur svona smá auka.
Uppskriftin er einföld og til að einfalda lífið meira er ekkert mál að nota niðursoðnar perur í stað þess að sjóða perur. Frábær desert eftir góða grill máltíð í sumar t.d. Svo vonum við bara að skyrið verði ekki bara tímabundið heldur komið til að vera því það er alveg einstaklega bragðgott.
Ekkert mál er að yfirfæra uppskriftina í skyrköku en þá mæli ég með að tvöfalda hana og setja í 20 cm form.
Skyrdesert – fyrir 4 –
130 g Lu Kanilkex
70 g smjör
Brúnið smjörið í potti, með því að leyfa því að malla á miðlungshita í 2-3 mín eftir að það er bráðnað. Fylgist vel með því það gerist hratt.
Myljið kexið í matvinnsluvél, einnig er hægt að setja það í plastpoka og lemja á það með kökukefli þangað til að það er orðið fín mylsna. Setjið mylsnuna í skál. Hellið brennda smjörinu yfir mylsnuna og hrærið vel í með skeið svo smjörið dreifist jafnt yfir. Setjið u.þ.b 2 msk af kexi í hvert glas og leggið til hliðar.
Skyr blandan
200 ml rjómi
200 ml KEA karamellu skyr
1 tsk vanilludropar
Létt þeytið rjómann. Opnið skyrið og til að spara uppvask blandið vanilludropum ofan í skyrdósina og hrærið vel saman. Hellið skyrinu saman við rjómann og blandið í mjúkum strokum. Deilið skyrinu jafnt í glösin og setjið í kæli í 1-2 klst eða lengur.
Soðnar perur
2 perur
2 msk sykur
200 ml vatn u.þ.b.
Skrælið perurnar og skerið í tvennt, setjið í pott ásamt vatni og sykri og leyfið að sjóða í 5-10 mín. Ef þær eru ekki notaðar strax er gott að setja þær í boxí vökvanum inn í ísskáp þangað til að desertinn er borinn fram.
Áður en desertinn er borinn fram eru perurnar settar ofan á skyrið og til að toppa desertinn er gott að sáldra smá karamellusósu yfir og rífa niður smá súkkulaði.
Njótið!
– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –