– Samstarf // Gott í matinn –
Þessi dásamlega skyrkaka er með smá ostaköku ívafi þar sem hún inniheldur skyr og rjómaost, en nær á sama tíma að halda skyrbragðinu í gegn. Skyrkökur eru svo skemmtilegar að það er hægt að leika sér með allskyns útgáfur þar sem skyrtegundirnar eru orðnar óteljandi en við ákváðum að skella í eina með karamellu en ég hef áður notað karamelluskyr og parað það saman með perum sem var ótrúlega bragðgott. Hér er sú uppskrift.
Að þessu sinni leyfum við skyrinu og karamellunni að njóta sín með pekanhnetum og kanilkexi í botninum og karamellukremi yfir. Eins og ég sagði hér fyrir ofan er hún hreinlega dásamleg.
Botn
200 g Lu kex
50 g pekanhnetur
100 g smjör
Setjið kex og hnetur saman í matvinnsluvél og myljið vel niður. Bræðið smjörið, bætið út í matvinnsluvélina og hrærið saman í stutta stund.
Takið 20 cm form og setjið hráefnin í formið. Þrýstið því niður og meðfram hliðum, svo kantur myndist. Setjið síðan inn í ísskáp meðan fyllingin er útbúin.
Fylling
200 ml rjómi
400 g skyr (2 dósir)
100 g rjómaostur
4 msk flórsykur
Þeytið rjómann í einni skál og skyr, rjómaost og flórsykur í annarri. Bætið þá skyrinu saman við rjómann í 2-3 skömmtum og hrærið það rólega saman.
Takið þá formið út og hellið fyllingunni yfir kexbotninn. Sléttið úr fyllingunni og setjið í stutta stund inn í ísskáp. Karamellunni er svo dreift yfir kökuna.
Leyfið henni að taka sig inn í ísskáp í 2-3 tíma og helst yfir nótt til þess að hún standi vel þegar skorið er í hana.
Karamellukrem
1 pk rjómakaramellur (150 g Rjómakúlur frá Nóa Siríus)
100 ml rjómi
Sett saman í pott á miðlungshita og leyft að sjóða þangað til að karamellan leysist upp, u.þ.b. 5 mín. Leyfið að kólna aðeins og síðan dreift yfir kökuna.
Marengs draugar
100 g eggjahvítur
200 g sykur
Stillið ofninn á 90°c. Byrjið á því að hræra eggjahvíturnar saman og bætið sykrinum rólega saman við. Stífþeytið og setjið í sprautupoka með hringlaga stút. Sprautið draugana með því að gera eina doppu fyrir búk og tvær minni fyrir hendur. Held að myndin sýni best hvernig þeir eru í laginu.
Gaman er að nota marengs draugana til að skreyta kökuna í kringum hrekkjavöku en einnig er hægt að leika sér með marengsinn við ólík tilefni.
Njótið!
– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –