Kökur

Mokka kaka

April 18, 2020
Mokkakaka

Ég fékk æði fyrir að gera þessa köku fyrir þónokkrum árum síðan, bakaði hana reglulega og svo bara ekki söguna meir. Eiginlega gleymdi því hvað hún er einföld og góð.

Svo fór ég í Krónuna í gær og það var svo mikið til af rjóma á afslætti að ég greip nokkra með mér. Ekki eins mörg páskaboð þessa páskana, augljóslega.

En ég er svakaleg, á mjög oft rjóma löngu fram yfir seinasta söludag. Tek hann bara og hristi hann aðeins ef það er ekki verið að nota hann. Hann endist alveg ótrúlega lengi.

En við þessi kaup poppaði upp hugmyndin að skella í þessa einföldu köku. Þrír kexbotnar og rjómi! Hún vakti mikla lukku gesta, þessara útvöldu sem við umgöngumst þessa dagana. Sem hafa fengið dágóðan skammt af kökum seinustu vikurnar. En hér er hún.

Eitt enn, þessi uppskrift væri frábær í stafi eða tölustafi eins og hefur verið svo vinsælt undanfarið árið. Teikna stafin(n)/a og bara þrýsta deiginu niður og setja rjómafyllingu á með sprautupoka. Frábær hugmynd sem ég fékk í þessum skrifum og mun klárlega framkvæma sjálf!


Kexbotnar

150 g smjör, við stofuhita
150 g sykur
150 g hveiti
½ tsk lyftiduft

Stillið ofn á 220 °c. Hrærið saman smjör og sykur þangað til létt og ljóst. Bætið hveitinu og lyftiduftinu saman við og hrærið saman.

Takið kökuform eða eitthvað hringlaga sem er 18-20 cm í þvermál og teiknið eftir hringnum á bökunarpappír, þrjá hringi. Deilið deiginu í þrennt eða 150 g hvert. og þrýstið niður eftir hringnum einfaldlega bara með höndunum.

Setjið inn í ofn í 6-7 mín og leyfið að kólna alveg.

Rjómablanda

400 ml rjómi
1½ tsk skyndikaffi
1 tsk vatn, sjóðandi
1 tsk flórsykur

Þeytið rjómann, blandið kaffi og vatni saman á meðan. Þegar rjóminn er fullþeyttur er kaffinu og flórsykri blandað saman við með sleikju.

Samsetning

Setjið fyrsta botninn á kökudisk, gott er að setja örlitla rjómaslettu undir botninn svo kakan geti ekki runnið af disknum.

Setjið helminginn af rjómanum ofan á og dreifið vel úr og setjið næsta botn ofan á, endurtakið ferlið.

Súkkulaðikrem

80 g súkkulaði
2 msk rjómi
½ dl pekan hnetur

Bræðið súkkulaði og rjóma saman við vægan hita yfir vatnsbaði eða inn í örbylgjuofni. Dreifið yfir efsta botninn.

Saxið hneturnar lítilega og dreifið yfir í hring meðfram súkkulaðikreminu.

Gott er að leyfa kökunni að hvíla inn ísskáp í 2-3 klst þá mýkir rjóminn botnana örlítið og betra er að skera hana. En ekki nauðsyn.

döðlur og smjör

You Might Also Like