– Unnið í samstarfi við Gott í matinn –
Nú fer að líða undir lok sumarsins og hægt er að næla sér í dásamleg bláber út í mó. Það er reyndar hægt að svindla með þessa köku þar sem við höfum orðið aðgengi að svo góðum bláberjum nánast allt árið um kring.
Hún er þétt í sér en á sama tíma svo fersk og góð. Samblandan af sítrónu, ylliblómum og bláberjum – Rámar meira segja í það að konunglega brúðkaupsterta Harry & Megan hafi verið eitthvað á þessa vegu. En ylliblómaþykknið er svo gott en því kynntist ég þegar ég bjó í Svíþjóð. Hylleblomst – svo frískandi og öðruvísi saft.
Sítrónu &bláberjakaka
300 g sykur
börkur af einni sítrónu
3 egg
3 tsk vanilludropar
3 msk ylliblómaþykkni (fæst í Ikea, en má sleppa)
270 g hveiti
2 tsk lyftiduft
½ tsk salt
230 g smjör, bráðið
1 dós sýrður rjómi (180 g)
200 g bláber
Stillið ofn á 175°c. Vigtið sykur og setjið í hrærivélarskál, rífið börkinn af sítrónunni ofan í sykurinn og blandið létt saman með hendinni. Bætið eggjunum, vanilludropum og ylliblómaþykkni saman við og hrærið vel í 3-5 mín – Þangað til að áferðin er létt og ljós.
Vigtið hveiti og blandið saman við ásamt lyftidufti og salti, setjið vélina af stað á lágri stillingu. Smjörið er brætt og sett út í ásamt sýrða rjómanum. Hrærið saman þangað til að hráefnin eru samlaga en ekki lengur.
Takið sleikju og skafið meðfram botninum á hrærivélar skálinni til að vera viss að allt sé blandað saman. Takið síðan bláberin og hrærið létt saman við deigið með sleikju.
Takið form í stærð 20-25 cm og spreyið að innan með Pam spreyi, hellið deiginu í formið og inn í ofn í 40- 50 mín. Ef kakan fer að dökkna of áður en hún er tilbúin er gott að setja álpappír yfir hana. Leyfið kökunni að kólna.
Krem
300 ml rjómi
100 g mascarpone ostur
1 tsk vanilludropar
2 msk flórsykur
Takið fram tvær skálar, létt þeytið rjóma í annarri og ost, vanilludropa og flórsykur í hinni. Blandið rjómanum saman við ostablönduna í tveimur skömmtum og hrærið vel saman.
Samsetning
Takið kökuna og setjið á disk, kremið er allt sett ofan á kökuna og dreift úr því – Gott er að setja fleiri bláber ofan á kremið, sem gefur kökunni ferskleika á móti bökuðu berjunum og sáldra síðan flórsykri yfir í lokin.
Njótið!
– Fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –