Þessi kaka er held ég bara formlega að fara vera Döðlur & smjör súkkulaðikakan! Ég er búin að baka þessa köku svo oft á árinu að ég hef ekki tölu á því og hún er dásamlegt í hvert skipti. Einföld í bakstri, bakast alltaf svo jöfn sem gerir hana auðvelda í samsetningu.
Þessi var bökuð fyrir nafnaveislu hjá litlum vini, sem skýrir litavalið á kökunni að þessu sinni.
Súkkulaðikaka- sú besta!
220 g hveiti
350 g sykur
80 g kakó
10 g matarsódi
165 g smjör, við stofuhita
1 tsk kaffi, instant
225 g volgt vatn
3 egg
80 g olía, hlutlaus
1-2 tsk vanilludropar
170 g ab mjólk/súrmjólk
Stillið ofn á 175°c. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið örlítið saman. Bætið smjörinu saman við þurrefnin og hrærið saman þangað til að deigið líkist brauðmylsnu í áferð. Á meðan blandið saman kaffinu, vatni, eggjum, olíu og vanilludropum saman í skál og hrærið létt saman. Stillið hrærivélina á lága stillingu og hellið vökvanum saman við þurrefnin hægt og rólega. Þegar allur vökvinn er komin saman við mælið ab mjólkina og hellið saman við deigið og hrærið saman.
Kakan er bökuð í 3×15 cm (6″) formum eða 2×20 cm (8″), spreyið þau að innan með PAM spreyi eða smjöri. Gott er að setja bökunarpappír í botninn á formunum.
Svo er gott er að vigta skálina sem er notuð fyrir baksturinn en mín KitchenAid stálskál er nákvæmlega 806 g. Setjið skálina með deiginu á vigtina, dragið þyng skálarinnar frá og deilið í þrennt. Setjið síðan jafnt magn af deigi í öll þrjú formin og inn í ofn. Svo er líka bara hægt að dassa ef þið eru ekki nákvæmnis pésar í þessum málum.
Bakið í 25-30 mín eða þangað til að prjónn kemur hreinn úr miðju kökunar.
Leyfið kökunum að kólna í 30-60 mín. Ég mæli svo með því að setja þær í plastfilmu og inn í ísskáp og leyfa þeim að kólna alveg þar. Takið þær svo fram þegar kemur að því að setja á þær krem.
Daim smjörkrem
2 stk Daim
300 g smjör, við stofuhita
600 g flórsykur
3-4 msk rjómi
2 tsk vanilludropar
3 msk kakó
Myljið Daim stykkin í matvinnsluvél.
Setjið smjörið í hrærivél og þeytið vel, bætið svo flórsykri varlega saman við ásamt rjóma og vanilludropum og þeytið vel, þá meina ég rosalega vel til að það verði létt og ljúft.
Skiptið kreminu í tvennt og setjið daimið og kakó saman við annan helminginn. Sá helmingur fer á milli botnanna en hinn utan um kökuna.
Samsetning
Takið botnana úr kæli og úr plastinu. Setjið fyrsta botninn á disk og setjið vænan skammt af daim kreminu ofan á og dreifið yfir. Ég setti dass af karamellusósu yfir kremið og svo næsta botn ofan á, endurtakið. Fyllið upp í eyðurnar sem myndast á hliðunum með kreminu og skafið slétt. Gott er að kæla kökuna í 5 mín áður en hún er hjúpuð að utan.
Hjúpið kökuna svo með vanillukreminu og skafið hana slétta. Skreytið svo eftir eigin hugmyndaflugi.
Smá ábending
Ég baka þessa köku oft fyrir hinu ýmsu tækifæri hjá vinum og fjölskyldu og til þess að auðvelda mér vinnuna, þá baka ég kökuna þegar tími gefst með góðum fyrirvara, plasta botnana vel og set í frysti. Því það er líka ótrúlega þægilegt að skreyta kalda botna, molnar minna úr þeim og gerir samsetninguna auðveldari.
Ég hef meira segja gerst svo kræf að taka botnana úr frysti 4-5 tímum áður en hún er borðuð, sett á hana krem, skreytt hana og leyft að þiðna við stofuhita þangað til hún er borin fram.
– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –