Samræðurnar á heimilinu:
“Jæja nú áttu afmæli á sunnudaginn á ég ekki að baka köku?
Jú, endilega!
Hvernig köku viltu?
Uhh uhh”
Afmælið yfirstaðið og ég enn að bíða eftir svari. Nei það komu alveg tillögur og niðurstaðan var að gera bananaköku þar sem afmælisbarnið elskar bananabrauð og svo vantaði bara krem sem tónaði við, hnetusmjör og karamella? Hljómar allaveganna dásamlega!
Kakan er svo skemmtilega öðruvísi að þið eiginlega verðið að prófa að skella í hana, allaveganna ef þú elskar bananabrauð og hnetusmjör!
Hún tók sér líka sjálfstæðan vilja í skreytingu. Svo ég mæli með því að setja karamelluna á og svo inn í kæli í smá tíma. Ég gerði það ekki og þegar ég ætlaði að fara að skreyta hana eftir smjörkrem tók ég eftir að kremið var byrjað að leka sem ég gat ekki annað en hlegið yfir, setti hana í kæli og leyfði henni bara að vera dálítið sjálfstæð í skreytingu.
Bananakaka
300 g hveiti
½ tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
½ tsk salt
110 g smjör
1 msk olía
225 g sykur
25 g púðursykur
2 egg
250 ml súrmjólk/ab mjólk
2 bananar
1 tsk vanilludropar
Stillið ofn á 175°c. Spreyið form að innan með PAM spreyi eða smjöri. 3×15 cm form (6 inch) eða 2×20 cm form (8 inch).
Sigtið þurrefnin saman í skál og setjið til hliðar. Blandið saman smjöri, olíu og sykri saman í hrærivél og hrærið saman með hræriarmi í 2-3 mín. Setjið eggin út í eitt í einu, hrærið vel saman. Blandið helmingnum af þurrefnunum saman við, þá súrmjólkinni og loks restinni af þurrefnunum, leyfið deiginu bara rétt að hrærast saman. Stappið banana á bretti og setjið út í degið ásamt vinnudropum. Blandið saman með sleikju.
Deilið deiginu á milli forma og bakið í 20-25 mín, gott er að stinga hníf í miðju kökunar, ef hann kemur hreinn út er kakan tilbúin.
Hnetusmjörskrem
50 g rjómaostur
110 g smjör
450 g flórsykur
2 msk rjómi
4 msk hnetusmjör
Setjið rjómaost og smjör saman í hrærivél og blandið hráefnunum létt saman. Bætið þá flórsykrinum og rjóma saman við. Leyfið kreminu að hrærast vel saman, því lengur sem það er hrært því loft meira og “flöffíera” verður það. Bætið svo hnetusmjörinu saman við í lokin. Ef þið viljið minna hnetusmjörsbragð þá setjið þið minna, gott að smakka eftir tvær skeiðar og bæta í eftir löngun.
Karamellusósa
100 g sykur
4 msk vatn
2 tsk Corn Sirop (fæst í Hagkaup)
60 ml rjómi
30 g smjör
Færið sykur, vatn og síróp saman í pott á miðlungslágum hita. Hrærið saman í byrjun en leyfið svo pottinum að vera þangað til að ljósbrúnn litur kemur á blönduna. Það tekur á milli 10-15 mín. Takið pottinn af hellunni og hrærið rjómanum saman við í mjórri bunu, ef rjóminn er settur allur í einu verður karamellan einn stór klumpur. Þegar rjóminn er kominn saman við bætið þá smjörinu saman við og hrærið saman. Leyfið karamellunni svo að kólna áður en hún er notuð á kökuna
Samsetning
Setjið kökuna á disk og krem þar ofan á, dreyfið vel úr kreminu og setjið 1-3 msk af karamellu á milli hvers lags. Hjúpið kökuna með kreminu og notið karamelluna sem drip á kökuna og dreyfið úr henni ofan á kökuna og skreytið eftir eigin ímyndunarafli.