Deigbakstur/ Morgunmatur

Beyglur

March 6, 2020
beyglur

Nýbakaðar eða ristaðar, þær eru bara einhver klassík- Annars værum við ekki að borða brauð með gati í miðjunni, meðvitað! Það er eitthvað auka við þær, tilbreyting frá venjulegu ristuðu brauði sem er einhverja hluta vegna alltaf jafn gott, hvað er það eiginlega ristað brauð með smjör og ost, namm.

Aftur að beyglunum, þá eru þær einfaldar í framkvæmd, allaveganna einfaldari en margir hugsa sér. Skella í deig að kvöldi til leyfa því að kaldhefast inn í ísskáp. Taka það út að morgni, skipta því upp, gat í miðju, í pottinn, hefast og inn í ofn. Einfalt ekki satt? Lofa!

beyglur

Mitt uppáhald, hreinn rjómostur, salat, avacado og smá salt- Væri reyndar fullkomnað með eggi líka. Ég sé fyrir mér að bjóða góðum vinum eða fjölskyldunni í helgarmorgunverð eða beygluboð. Engin flókin bröns heldur einfaldlega hlaðborð af beyglum og góðu áleggi og meðmæli og það allra mikilvægasta auðvitað KAFFI. Held ég láti bara verða af því í bráð, þið meldið ykkur bara í heimsókn á laugardagsmorgni hjá mér.

En að uppskriftinni, gjörið og svo vel!

Beyglur

250 ml volgt vatn
2 tsk þurrger
1 msk sykur
200 g hveiti (Blátt Kornax)
200 g heilhveiti (Grænn Kornax)
1 tsk gróft salt

Blandið saman vatni, geri og sykri og leggið til hliðar. Blandið þurrefnunum saman í skal og setjið upp krókinn í hrærivélina. Kveikjið á vélinni á lægstu stillingu og hellið gervatninu rólega saman við. Leyfið deiginu að hnoðast saman í 2-3 mín.

Takið krókinn upp og leggið rakt viskastykki yfir skálina og leyfið að hefast í klukkustund. Einnig er hægt að setja deigið inn í ísskáp yfir nótt og þá er gott að setja það í plastbox svo það komist betur fyrir inn í skápnum.

Takið deigið og skiptið því upp í átta jafna búta. Rúllið hverjum bút í höndunum á ykkur og mótið í flata kúlu. Stingið fingrinum í gegn í miðjunni og ef þið viljið lítið gat látið þar við sitja eða setjið vísifingur í gatið og snúið með fingrinum til að stækka gatið.

Leyfið deiginu að hefast í 20 mín. Stillið ofn á 200°c og setjið vatn í pott og leyfið suðunni að koma upp.

Þegar deigið er klárt, lækkið undir í pottinum svo það sjóði ekki á meðan beyglurnar eru í vatninu. Setjið beyglurnar varlega ofan í eins margar og komast fyrir í þínum potti, sjóðið í 30 sek og snúið á hina hliðina og aðrar 30 sek þar. Leggið beyglurnar á bökunarpappír og endurtakið við restina af beyglunum.

Ef þið viljið setja fræ eða korn ofan á þær gerið það hér. Setjið annars beyglurnar inn í ofn og bakið í u.þ.b. 20 mín eða þangað til þær eru orðnar gullinbrúnar.

Takið út og berið fram volgar eða ást mín á frysti kemur enn og aftur til skila en þær eru frábærar til að eiga i frystinum en munið að skera þær í sundur áður en þær eru frystar. En ég þekki einn sem frysti alltaf banana í hýði og skildi ekkert í því að fólk dásamaði því að geta fryst banana þetta væri bara óttarlegt puð.

Góða helgi og njótið!

You Might Also Like