Samstarf // Gerum daginn girnilegan
Þessir litlu jólasveinar voru algjör hitter, já litlum sem stórum. Frábær leið til að borða eitthvað annað en smákökur í desember en hafa gaman af því á sama tíma. Það tekur stutta stund að skella þeim saman og væru frábær viðbót í Pálínuboðið eða sem snarl hvaða dag sem er í desember.
Jarðaberja jólasveinar
1 askja jarðaber
bláber
1 pk oreo kex
50 g dökkt súkkulaði
1 dós jólajógúrt
200 g rjómaostur
½ dl rjómi
½ dl flórsykur
Hrærið saman rjómaost, rjóma og flórsykri og setjið í sitthvorn sprautupokann einn með stórum stjörnustút og öðrum með litlum.
Bræðið þá 50 g dökkt súkkulaði og skerið neðan af stóru jarðaberjunum og dýfið ofan í. Notið súkkulaðið til að festa jarðaberið við oreo kexið og sama með bláberin tvo á fyrir sitthvorn fótinn. Leyfið að þorna í 2-3 mín en þá takið þið stærri sprautustútinn og sprautið skeggið, opnið lokið á jólajógúrtinni og náið í tvær súkkulaðikúlur fyrir augu og þessar ílöngu fyrir nef.
Takið þá annað jarðaber helst lítið og skerið neðan af því sem hatt, tyllið hattinum á, takið þá minni sprautustútinn og sprautið meðfram hattinum hans. Þá er kallinn klár.
Þetta er ótrúlega skemmtilegt og einfalt, kallarnir geymast vel í kæli en mæli með að þeir séu borðaðir samdægurs.
Njótið!
– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –