Ég varð við áskorun að birta minn uppáhalds morgunverð sem er kaldur hafragrautur fyrir Matur á mbl.is svo ég leyfi viðtalinu að fylgja hér fyrir neðan ásamt uppskriftinni. Mæli með að þið prófið!
Hildur Gunnlaugs arkitekt og umhverfisfræðingur skoraði á Guðrúnu Ýri Eðvaldsdóttur sælkera og matarbloggara með meiru, sem heldur úti uppskriftasíðunni Döðlur og smjör, að deila með lesendum uppskriftinni að sínum uppáhaldsmorgunverði.
Guðrún varð við áskoruninni og deilir hér með lesendum Matarvefsins morgunverði í hollari kantinum með skemmtilegu tvisti. Guðrún hefur mikla ástríðu fyrir matargerð og nýtur sín best í eldhúsinu.
Aðspurð segir hún að innblásturinn í matargerðina fái hún bókstaflega alls staðar að. „Ég pæli mikið í mat og finnst gaman að skoða uppskriftir og matarmenningu. Ég get gleymt mér í matarbúðum, sérstaklega erlendis, bara við það eitt að skoða hvað er í boði. Mér finnst augljóslega mjög gaman að prófa mig áfram í eldhúsinu, hvað passar saman og hvað ekki. Svo einfalda svarið við hvar innblásturinn er að finna er alls staðar,“ segir Guðrún.
Einfaldur og góður
Guðrún tók áskorun Hildar fagnandi og galdraði fram sinn uppáhaldsmorgunverð á augabragði. Þetta var minn „go to“-morgunmatur áður en ég varð ólétt og átti dóttur mína en þá datt ég á seríosvagninn eins og margar óléttar konur. Tæpu 2½ ári seinna er ég að stíga af þeim vagni og færa mig aftur í þennan kalda hafragraut sem mér finnst alltaf jafn einfaldur og góður.“
Hvern viltu skora á að taka við keflinu næst og ljóstra upp uppskriftinni að sínum uppáhaldsmorgunverði? „Ég ætla að skora á hana Vingu sem heldur úti instagramminu @vingap, en ég held að hún eigi vinninginn yfir fallegustu morgunverðardiska landsins, ég væri til í að mæta í morgunmat hjá henni á hverjum degi.“
Kaldur hafragrautur – fyrir einn
1 dl grófir hafrar
1 msk chia fræ
2 dl kókosmjólk (Koko) hægt að nota hvaða jurtamjólk sem hentar
klípa af salti
1 daðla eða ½ tsk döðlusíróp
Ofan á
½ banani
1 msk möndlusmjör
½ dl granóla
Setjið hafra, chia fræ, kókosmjólk, salt og niðursaxaða döðlu saman í skál með loki og geymið í kæli yfir nótt. Skerið bananann í sneiðar og leggið yfir grautinn, bætið þá við möndlusmjöri og sáldrið granóla yfir.
Frábært til að taka með sér í vinnuna á morgnana eða í nesti fyrir krakkana t.d.
Uppskrift af granóla ef þú vilt gera þitt eigið, finnurðu hér.
Njótið!
– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –