Kökur

Kladdkaka með jarðaberjum og haframulning

February 25, 2020
kladdkaka

Önnur uppskriftin á stuttum tíma sem ég tengi við tímann minn í Svíþjóð – en það er Kladdkaka. Æðisleg uppskrift af köku sem maður getur alltaf skellt í því maður á oftast þessi hráefni inn í skáp, ekkert vesen- skelt í, hviss bamm búmm. Fyrir mér er þetta svona ódýra og fljótleg útgáfa af franskri súkkulaðiköku. En alveg unaðslega góð.

Að þessu sinni ákvað ég að prófa að klæða hana svolítið upp í takt við árstímann. Svona hlýleg og góð þó að jarðaber séu kannski ekki alveg áminning um veturinn en þið skiljið mig. Svolítið svona fín og góð hjónabandssæla sem þú færð þér þegar þú kemur inn með frostbitið nef eftir að hafa leikið úti í snjónum. Þið vonandi fattið hugmyndina!

kladdkaka

Að öðru þá langar mig að beina athygli ykkar að disknum á myndinni, ég er búin að vera svo spennt að nota hann því mér fannst hann svo fallegur þegar ég keypti hann en ég fékk hann í Góða Hirðinum uppáhalds versluninni minni þegar kemur að því að kaupa fallega diska undir kökur og bakkelsi. Það leynist svo ótrúlega margt skemmtilegt og fallegt þar. Eru þið ekki sammála, hann er fallegur?


Jarðaberjafylling

150 g jarðaber
1 msk sykur
1 msk maizena (maísmjöl)

Setjið öll hráefnin saman í pott á miðlungshita og leyfið þeim að malla í 3-5 mín. Takið af hellunni.

Kladdkaka

100 g smjör
2 egg
220 g sykur
4 msk kakó
2 dl (220) g hveiti
2 tsk vanilludropar
½ tsk salt

Stillið ofn á 175°c. Bræðið smjör í örbylgjuofni eða í potti. Hrærið saman egg og sykur þangað til létt og ljóst. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið saman. Smyrjið 20 cm form að innan með smjöri eða spreyi og hellið deiginu í formið. Bætið jarðaberjafyllingunni yfir og síðan er haframulningnum dreift yfir ásamt súkkulaðinu. Kakan síðan sett inn í ofn í 20-25 mín.

70 g smjör, kalt
2 dl haframjöl
½ dl muscovado sykur eða annar sykur
1 msk vanillusykur
50 g mjólkursúkkulaði (má sleppa)

Setjið öll hráefnin nema súkkulaðið saman í skál og blandið saman með hendinni, þangað til öll hráefnin eru vel klesst saman.

You Might Also Like