Deigbakstur

Pipp & peru bollur

February 2, 2023
pipp og perubolla

Samstarf // Royal

Hann kemur alltaf aftur og aftur þessi frábæri dagur okkar Íslendinga – Bolludagur. En ég tók forskot á sæluna til þess að geta deilt með ykkur tímalega fyrir bolludag og prófaði að útbúa þessar frábæru bollur.

Royal er að setja á markað nýjan búðing og ég lagði höfuðið í bleyti í nokkra daga hvað gæti parast vel saman með búðingnum og niðurstaðan var eitthvað ferskt sem tekur ekki samt ekki athyglina frá myntubragðinu og svo auðvitað ákvað ég að hafa smá bit í á móti og endaði með því að gefa bollunni þennan skemmtilega Nóa kropps hatt.

Ég er mjög hrifin af því þegar súkkulaðið er ekki of hart á hattinum og bæti yfirleitt smá rjóma út í súkkulaðið eða nota jafnvel súkkulaðismyrju á hattinn eins og ég geri hér. Gaman er að leika sér að allskyns bollu útfærslum, prófa eitthvað nýtt í bland við gömlu klassíkina rjóma og sultu.

En þessi bolla fékk glimrandi dóma við smökkun og daginn eftir var óskað að við ættum fleiri, svo þær verða klárlega gerðar á ný á bolludaginn.

pipp og peru bolla
pipp og peru bolla

Pipp búðingur

250 ml rjómi
250 ml nýmjólk
1 pk Pipp Royal búðingur

Byrjið á því að útbúa búðinginn og setjið inn í ísskáp meðan þið gerið bollurnar.

Blandið öllu saman í skál og þeytið vel saman í 2-3 mín. Setjið lok eða plastfilmu yfir skálina og kælið.

Vatnsdeigsbollur

250 ml vatn
125 g smjör
125 g hveiti
4 egg

Stillið ofn á 180°c. Setjið vatn og smjör í pott og leyfið smjörinu að bráðna. Takið pottinn af hitanum og hrærið hveitinu saman við þar til deigið er orðið einn massi, kælið deigið örlítið. Setjið deigið í hrærivélarskál og bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Setjið deigið þá í sprautupoka og sprautið bollur á smjörpappírsklædda plötu, eða notið tvær teskeiðar til setja deigið á plötuna. Bakið í 18-20 mínútur.  Ef þið viljið hafa bollurnar stærri þá er tíminn aukinn í samræmi við það.

Fylling

50 g Nóa kropp
100 g suðusúkkulaði
30 ml rjómi

1-2 vel þroskaðar perur eða niðursoðnar

Setjið Nóa kroppið í plastpoka og lemjið með buffhamri eða kökukefli, þangað til allar kúlurnar hafa farið í sundur og setjið í skál.

Setjið þá súkkulaði og rjóma saman í skál og bræðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði.

Afhýðið perurnar og skerið í litla bita.

Skerið bollurnar í tvennt og dýfið efri hlutanum ofan í súkkulaðið og beint í Nóa kropp kurlið.

Takið þá búðinginn úr ísskápnum. Gott er að þeyta aðeins upp í honum aftur í 2-3 mín til að fá áferðina líkari rjóma Setjið í sprautupoka með stút en einnig er hægt að nota skeið.

Sprautið búðingnum á neðri hluta bollunnar og setjið 3-4 bita af peru í miðjunni á hverri bollu og lokið með efri partinum. Endurtakið við allar bollurnar.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like