Ég held að hver einasti einstaklingur sem hafi búið í Svíþjóð þekki og elski semlor, þær eru svo góðar – Það er eitthvað við þær! Kardimommurnar! Ég hreinlega veit ekki hvað ég innbyrti margar bollur á tíma mínum í Svíþjóð og alltaf ef ég fer til Svíþjóðar á þeim mánuðum sem bollurnar eru á boðstólnum þá gæti ég ekki neitað mér um slíka.
En bollurnar eru bara í bakaríunum hluta af ári, líkt og bollurnar okkar nema yfir aðeins lengra tímabil sem við ættum nátturulega að taka þeim til fyrirmyndar og selja bollur bara frá miðjum jan til miðjan feb allaveganna!
En ég vona að þið prufið ykkur áfram og ég lofa að þið verðið svo sannarlega ekki svikin!
Ég mæli með að nota ferskar kardimommur í uppskriftina og mylja í morteli.
Semlor bollur -18 stk –
Fordeig
200 ml mjólk, volg
260 g hveiti (blár Kornex)
3 tsk þurr ger
Bætt í síðar
160 g hveiti
1 egg
½ tsk salt
3-4 tsk kardimommur
100 g smjör, við stofuhita
90 g sykur
Hrærið saman mjólk, hveiti og ger í 1-2 mín og leyfið að hvíla í 10-15 mín.
Bætið síðan saman við fordeigið öllum hráefnunum listað hér fyrir ofan. Þeytið með krók í 15 mín á lágri stillingu. Eða þangað til að hægt er að taka deigið og teygja það án þess að það slitni auðveldlega.
Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið að hvíla í 30 mín.
Eftir 30 mín takið deigið og skiptið deiginu upp í bollur, gott að miða við að hver bolla sé 45-50 grömm en gott er að vigta þær til að þær séu allar álíka stórar. Mótið bollurnar og leggið á bökunarpappír á ofnskúffur og breiðið viskastykki yfir og leyfið að hvíla í u.þ.b. 2 klst.
Ofninn er stilltur á 200°c, leyfið honum að hitna. Setjið bollurnar inn í ofn í 8 mín og leyfið þeim að kólna vel.
Möndlufylling
100 g möndlur
100 g flórsykur
2 tsk kardimommur
1 eggjahvítur (mæli með gerilsneyddum)
rjómi (til að þynna eftir óskum)
Ristið möndlurnar í ofni á 200°c í 10 mín eða þangað til þær eru farnar að brúnast, leyfið þeim að kólna. Setjið í matvinnsluvél möndlurnar og flórsykur og leyfið að myljast vel saman.
Bætið saman við kardimommum og eggjahvítu og þeytið vel saman. Ef massinn er mjög þykkur er gott að þynna hann aðeins með rjóma.
Geymið í loftþéttu íláti.
Samsetning
Bollur
Möndlufylling
300 ml rjómi
flórsykur, til skrauts
Þeytið rjómann, gott er að setja hann í sprautupoka. Skerið lokið ofan af bollunum, leyfið hnífnum að snúa niður í áttina að bollunni svo það myndist smá gígur í hana fyrir fyllinguna.
Setjið u.þ.b. eina tsk af fyllingu í hverja bollu og sprautið rjóma yfir fyllinguna og bolluna. Lokið sett ofan á og flórsykri stráð yfir bolluna, en gott er að nota sigti eða tesíu í verkið.
Vona svo sannarlega að þið njótið!
– Endilega fylgstu með á Instagram @dodlurogsmjor –