Eldað

Blómkáls og blaðlaukssúpa

February 19, 2024
súpu uppskrift

Samstarf // Gott í matinn

Mögulega eru tvær súpur í miklu uppáhaldi hjá mér og hef birt þær báðar hérna á síðunni annars vegar blómkálssúpa og svo blaðlaukssúpa. Svo mér fannst tilvalið að prófa að tvinna þær saman og útkoman var virkilega bragðgóð súpa. Báðar súpurnar eru mildar á bragðið en finnst þær svo fullkomnar á köldum degi með smá brauði.

Svo ef þér finnst blómkálssúpa góð þá mæli ég með að prófa að breyta til og gefa þessari prófun, þú verður ekki svikin/n.

súpu uppskrift
súpu uppskrift

Blómkáls og blaðlaukssúpa – fyrir u.þ.b. 4 –

400 g blómkál
1 l. vatn
1 blaðlaukur
25 g smjör
50 ml hveiti
1 kjötkraftur
1 grænmetiskraftur
300 ml rjómi
1 msk sojasósa
1 tsk salt
pipar eftir smekk

Skerið blómkálið í bita og setjið í pott ásamt líter af vatni. Leyfið suðunni að koma upp og lækkið undir og leyfið að sjóða í u.þ.b. 10 mín. Skerið þá blaðlaukinn niður í sneiðar og setjið í annan pott. Bætið smjörinu saman við og steikið saman á miðlungshita í 2-3 mín. Bætið þá hveitinu saman við og hrærið vel saman.

Bætið dl í einu af blómkáls vatninu saman við laukinn og hrærið vel í, bætið 2-3 dl í viðbót áður en krafti, rjóma og sojasósu er bætt saman við. Hrærið vel saman og blandið restinni af vatninu við súpuna ásamt helmingnum af blómkálinu.

Notið töfrasprota til þess að mauka saman súpuna og bætið restinni af blómkálinu saman við ásamt salt og pipar. 

Gott er að bera fram með brauði og ykkar uppáhalds áleggi.

Njótið!

– Ert þú að fylgjast með á Instagram @dodlurogsmjor? –

You Might Also Like