Deigbakstur

Brioche krans með pestó & trufluosti

October 19, 2020
brioche krans

Brioche deigið er svo dásamlegt að því leyti að það er hægt að nota það í svo marga ólíka hluti. Ég bjó til deig án þess að vita nákvæmlega hvað ég ætlaði að gera við það daginn eftir. Ég endaði með því að baka þennan fallega krans og gerði síðan kanilsnúða úr hinum helmingnum. Hægt er að nota það í hamborgabrauð, kleinuhringi og bara allt mögulegt, alveg dásamlegt!

En ég smakkaði um daginn enskan cheddar ost með trufflum um daginn og hann hefur sitið í mér síðan ég smakkaði hann. Svo þar sem ég átti leið í Costco þá varð ég að grípa hann með og gera eitthvað gott úr honum og úr varð að hann fékk að fylgja með í þennan briche krans.

Í fyrsta sinn eftir að ég fór af stað með síðuna á ég ekki heiðurinn af myndunum en hann á hún Heiðdís Guðbjörg sem tók þessar fallegu myndir. En við tókum okkur saman á föstudag eftirmiðdegi og tókum helling af myndum saman, spjölluðum um matargerð, ljósmyndun og allt milli himins og jarðar – mjög kærkomin stund á Covid tímum.

brioche

Brioche deig

2 egg
50 g sykur
1 tsk salt
240 ml mjólk
12 g þurrger (1 pk)
170 g smjör
560 g hveiti

Hrærið saman egg, sykur og salt. Mælið mjólkina og hitið í örbylgjuofni eða í potti þangað til hún er orðin volg. Blandið gerinu við deigið ásamt mjólkinni og hrærið létt saman. Sama á við um smjörið bræðið það og það sett út í deigið. Skiptið yfir í krók á vélinni.

Vigtið hveitið saman við og hrærið því örlítið saman með króknum í höndunum, svo það fari ekki út um allt þegar þið setið hrærivélina af stað. Hrærið í góðar 5 mínútur og er eðlilegt að deigið klífi aðeins upp krókinn.

Látið deigið í skál sem kemst inn í ísskápinn hjá ykkur og setjið plastfilmu þétt upp að deiginu. Leyfið að hefast í minnst 3 klst, gott er að gera það að kvöldi og leyfa því að hefast yfir nótt.

Fylling

1 krukka rautt pestó
100-150 g trufluostur (fæst í Costco)
salt & pipar

Hægt er að nota hvaða pestó sem ykkur langar sama á við um ostinn. Ég átti þennan dásamlega enska cheddar með truflum og notaði hér en leyfið hugarfarinu að ráfa eða því sem til er í ísskápnum ykkar og prófið.

Samsetning

Takið deigið úr kæli og setjið á hveitistráð borð. Fletjið það út líkt og þið séuð að útbúa snúða, gott að miða við 40×50 cm. Dreifið pestóinu, ostinum og kryddið létt með salt og pipri. Rúllið deiginu upp enn of aftur eins og þið væruð að útbúa snúða.

Þá breytist tæknin, takið hníf og skerið rúlluna í tvennt – langsöm. Snúið skurðinum upp og festið annan endan létt saman. Þá er það bara að rúlla þessum tveimur pörtum saman. Sem er gert með því að annar hlutinn er settur yfir hinn og svo hinn yfir hinn og koll að kolli (langavitleysan!)

Þegar þið eruð komin á enda festið partana létt saman og mótið í hring. Færið deigið yfir á bökunarpappír og leyfið að hefast í 20 mín.

Þá er gott að kveikja á ofninum á 180°c. Ég baka brauðið í potti svo það haldi betur fallegu lagi og gefi möguleika á því að setja lok á ef það byrjar að dökkna of snemma.

Áður en brauðið er sett inn í ofn er það penslað með einu eggi og ekki sakar að strá smá salti yfir. Setjið brauðið í pott og inn í ofn og bakað í u.þb. 40 mín.

Njótið!

– Fylgstu einnig með á Instagram @dodlurogsmjor –

You Might Also Like