Eftirréttir

Karamellu tiramisu sem bráðnar í munni

December 23, 2023
karamellu tiramisu

Tiramisú er dásamlegur eftirréttur sem er léttur og sætur, fullkomin eftir þunga máltíð en manni langar í smá sætt. Ég ákvað að ögra smá klassísku tiramisu og prófa að breyta því svolítið og bæta við það karamellusósu og Doré karamellusúkkulaði og útkoman er dásamleg.

Ég held mig þó við kaffi bleyttar kökur og sáldraði kakó yfir en ef fólk vill síður kaffi bragðið er ekkert mál að bleyta upp í kökunum með mjólk, þá verður það einnig barnvænna.

Ég er mjög hrifin af eftirréttum sem er ekkert mál að græja deginum áður. Hvort sem það er tiramisu, súkkulaðimús, ostakaka eða marengs. Svo það sé ekkert auka stress á manni þegar maður er með matarboð eða hvað þá um jól og áramót – Bara inn í ísskáp og tilbúið til að bera fram.

Gott er að leyfa hráefnum eins og eggjum, rjóma og mascarpone ostinum að standa á borðinu í svolitla stund áður en er farið að gera tiramisu, það hjálpar hráefnunum að blandast betur saman.


Karamellu tiramisu – fyrir 4-6 –

100 ml sterkt kaffi
2 egg
80 g sykur
250 ml rjómi
100 g Doré karamellusúkkulaði frá Nóa Siríus
200 g mascarpone ostur
24 stk Lady fingers (1 pk.)
Karamellusósa, keypt eða uppskrift hér fyrir neðan
2-3 msk kakó

Hellið upp á sterkt kaffi og leyfið að kólna lítillega.

Setjið egg og sykur saman í hrærivélarskál og þeytið saman þangað til það er létt og ljóst, í u.þ.b. 3-4 mín. Þeytið þá rjómann í annarri skál og í þeirri þriðju bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Þegar súkkulaðið er bráðið, setjið hrærivélina af stað með eggjunum og sykri og blandið súkkulaðinu saman við. Passið að súkkulaðið hafi kólnað lítillega áður.

Blandið þá súkkulaðiblöndunni varlega saman við rjómann. Notið síðan rjómaskálina og setjið mascarpone ostinn í og hrærið aðeins í honum, blandið þá smá af súkkulaði rjómablöndunni við ostinn og þegar hann hefur samlagast við blönduna, bætið öllu saman í eitt.

Samsetning

Finnið til skál eða fat og sáldrið smá kakódufti í botninn (gott er að nota tesíu í verkið eða fínt sigti). Bleytið þá upp í lady fingers kökum í kaffinu, eina í einu og leggið í fatið. Drisslið karamellu yfir kökurnar u.þ.b. 2 msk og sáldrið kakódufti yfir, setjið þá um helming af blöndunni yfir. Þá er það að endurtaka leikinn. Bleyta í kökunum og leggja yfir, karamella og kakóduft. Í lokin má setja hinn helminginn af blöndunni yfir eða setja í sprautupoka með stút og sprauta yfir til að fá skemmtilega áferð.

Setjið í kæli og leyfið að hvíla í 8-24 tíma. Áður en tiramisuið er borið fram sáldrið kakódufti yfir og bjóðið restina af karamellusósunni með, fyrir þá sem vilja meira með.


Karamellusósa

200 g sykur
50 ml vatn
100 ml rjómi
50 g smjör

Setjið sykur og vatn saman í pott á miðlungshita. Leyfið blöndunni að malla án þess að vera að hræra í henni þangað til að allur sykurinn er bráðinn, fylgist með þegar hún fær á sig gylltan lit. Þegar hún hefur fengið á sig lit er gott að slökkva undir og bæta rjómanum saman við og hræra á meðan. Þá er smjörinu blandað saman við og þá ætti karamellan að vera klár. Hellið í krukku sem hægt er að loka og leyfið að kólna.

Njótið!

– Ert þú að fylgjast með á Instagram @dodlurogsmjor? –

You Might Also Like