Eftirréttir

Eitt Sett súkkulaðimús

May 30, 2022
eitt sett súkkulaðimús

Góðar uppskriftir spretta oft upp út frá öðrum uppskriftum eða bara eiginlega mjög oft. Að þessu sinni var Þristamúsin landsfræga fyrirmyndin sem á uppruna sinn hjá Simma Vill og ég studdist við uppskriftina á síðunni hennar Berglindar www.gotteri.is – nema ég ákvað að prófa nýja uppáhald Íslendinga Eitt Sett súkkulaðiplöturnar og það heppnaðist líka svona svakalega vel.

Ég leyfi mér að segja að þetta eigi eftir að verða eftirréttur sumarsins! Léttur eftirréttur eftir grill matinn, mataboðið eða í veisluna því ég held að við eigum svo sannarlega eftir að vera í því að hittast í sumar.

eitt sett súkkulaðimús

Eitt Sett súkkulaði mús – fyrir u.þ.b. 6 –

300 g Eitt Sett súkkulaði (2 plötur)
500 ml rjómi
4 eggjarauður
1 msk flórsykur

Brjótið súkkulaðið niður og setjið í pott ásamt 100 ml af rjóma, hitið á lágum hita þangað til að súkkulaðið hefur bráðnað. Hrærið vel og leggið til hliðar.

Léttþeytið 400 ml af rjóma í einni skál og þeytið saman eggjarauður og flórsykur þangað til létt og ljóst í annarri.

Blandið þá súkkulaðinu saman við eggjarauðurnar og hrærið vel saman. Þá er súkkulaðinu blandað saman við rjómann í nokkrum skömmtum og hrært varlega á milli.

Hellið í eina stóra skál eða dreifið í minni skálar. Setjið músina inn í ísskáp og leyfið henni að taka sig í minnst 2-3 klst. Áður en músin er borin fram er tilvalið að skreyta hana með meira súkkulaði, ferskum berjum og jafnvel lakkríssósu.

Njótið!

– Ertu að fylgjast með á Instagram Döðlur & smjör ? –

You Might Also Like