Bland í poka

Brúðkaupið okkar

February 14, 2023

Fyrir einu og hálfu ári síðan ákváðum við Gulli að gifta okkur, ótrúlega spennandi. Við ákváðum dagsetningu, bókuðum kirkju, sal og auðvitað hljómsveitina sem var eitt af því mikilvægasta að okkar mati. Svo leið tíminn og ég fór að huga að hlutum sem að voru meira svona praktísk atriði og ég vissi ekkert hvar ég átti að byrja og sá alveg nokkrum sinnum eftir því að hafa ekki bara farið einfaldari leið að þessu en þegar upp er staðið sé ég svo sannarlega ekki eftir einu né neinu svo ég er svo sannarlega ekki að draga úr ykkur að halda stóra veislu heldur að segja ykkur hvað ég gerði, hvar ég bókaði og hvað stóð upp úr hjá mér og vonandi hjálpar það einhverjum þarna úti.

Ég leitaði mér svo mikið af upplýsingum hjá hinum og þessum, las færslur hjá bloggurum hvað fólk var að gera og leitaði mikið til vinkvenna sem voru búnar að gifta sig – því flestir gera þetta nú bara einu sinni og því um að gera að miðla til annarra.

Svo hér fyrir neðan ætla ég að lista til þá leið sem við fórum og vorum svo sannarlega ánægð með.

Athöfnin

Við giftum okkur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og séra Guðmundur Karl sóknarprestur í Lindakirkju gaf okkur saman. Þar sem ég bý í nágrenni við kirkjuna labbaði ég í kirkjuna ásamt pabba mínum, stelpunum okkar Gulla og þremur vinkonum, það var ótrúlega skemmtileg stund og eitthvað sem ég beit í mig mjög snemma í ferlinu að mig langaði að gera.

Athöfnin var ótrúlega létt og falleg, Sváfnir Sigurðsson söng fyrir okkur þrjú lög við undirleik hans og Pálma Sigurhjartasonar. Lögin sem urðu fyrir valinu okkar voru The wonder of you, I don’t want to miss a thing og Ólýsanleg með Hildi Völu. Inngöngulagið var Here comes the sun og þeir spiluðu hið klassíska útgöngulag þegar við gengum saman út.

Það var ýmislegt eftirminnilegt sem gerðist í athöfninni eins og ég missti slörið og Lovísa litla var ekkert að láta segja sér fyrir og vafraði um og lét í sér heyra.


Myndatakan

Við fengum hana Halldóru Kristínu til að taka að sér myndatöku dagsins og var hún með okkur allt frá því að Gulli fór í sund með krakkana um morgunin og alveg inn í veisluna um kvöldið.

En við fórum í myndatöku við Hvaleyrarvatn eftir athöfn, við vorum sótt af einum flottasta bíl landsins, við köllum hans bílinn hans Badda. Því hann var notaður í tökur á Djöflaeyjunni og átti Baddi bílinn. Krakkarnir komu hluta úr myndatökunni og fóru svo aftur. Við nutum þess að vera í rólegheitum með ljósmyndaranum og gerðum okkur meira segja ferð á leiðinni í veisluna og smelltum nokkrum myndum í Hellisgerðinni í leiðinni.

Ég var búin að bóka afnot í Safnarhúsinu ef veðrið yrði verra sem rættist úr.


Fötin mín

Kjóll – Loforð
Skór – Andrea
Skart – Mjöll, Hildur Hafsteins og lokkar sem ég verslaði á Spáni
Hárkambur – Pastel blómastúdíó
Seinni kjóll – H&M
Strigaskór – Converse

Ég verslaði mér kjól hjá Loforð, þar keypti ég einnig slörið og nokkra praktíska hluti eins og aðhaldsbuxur og teip fyrir brjóstin sem var algjör snilld og það fyrir konu sem er ekki með lítil brjóst virkaði þetta rosalega vel.


Fötin hans

Jakkaföt – Suit up, sérsniðin
Skór – Dune, Asos

Gulli bar einnig bindanælu sem langaafi hans átti og er yfir 100 ára gömul svona skemmtilegt smáatriði.


Fötin á krakkana

Kjóll á Ísabellu – Stradivarius
Skór – hvítir Converse
Skart – Mjöll og Sign
Hárkambur – Pastel blómastúdíó

Jakkafötin á Karel – Roco clothing
Skór – Einnig Roco clothing

Kjóll á Lovísu – Zara (keyptur í loppunni)
Skór – Converse, bee yourself línan
Sokkar – Bíum bíum
Peysa – heimaprjónuð af ömmu hennar
Hárspenna – Pastel blómastúdíó


Matur

Við byrjuðum veisluna á Tapas ostaborði og freyðivíni. Ég veit fátt verra en að mæta í veislu og fólk sötrar á freyðivíni og er orðið svangt og farið að bíða eftir mat. Svo við vorum með veglegt ostaborð með allskyns ostum, ávöxtum, súkkulaði, kexi, pulsum og þess háttar. Það var svo sannarlega vel tekið í það og fólk nartaði í það allt kvöldið.

Við vildum hafa hefðbundið hlaðborð, bara góðan mat og vel útlátinn. Við höfðum heyrt rosalega gott af Grillvagninum bæði í brúðkaupsveislur og svo höfum við vinahópurinn bókað jólahlaðborð frá þeim í heimahús og það var algjör hitter. Við fengum mikið lof fyrir matinn og allt var tip top frá þeim og við í skýjunum með þjónustuna þeirra.

Brúðartertan var skemmtilegt samstarf á milli mín og Katrínar. Mig langaði að baka mína eigin brúðartertu en vildi að hún væri fallega skreytt smjörkremsblómum og þar sem ég vildi ekki stressa mig á því að skreyta kökuna sjálf fékk ég hana Katrínu í lið með mér en hún setti kökuna saman og skreytti hana svo listilega – Hún var algjör showstopper. En kakan sjálf var súkkulaðikaka með hindberjum og lakkrís.

Svo var það nartið við vorum með nammibar sem gestir voru duglegir að næla sér í mola.

Og auðvitað eðlan sem við buðum upp á um miðnætti sem sló svo skemmtilega í gegn þegar fólk var búin að vera duglegt á dansgólfinu. Svo einfalt miðnætursnarl sem þjónarnir skelltu í fyrir okkur og báru fram með nachos.


Skreytingar

Mig langaði ekki að fara í það að kaupa allskonar einnota dót til að nota í veisluna eða sitja uppi með allskonar dóti sem ég hefði ekkert not fyrir nema þennan eina dag. Svo ég nýtti mér skreytingarleigur sem ég mæli svo mikið með.

Skreytingarþjónustan er náttúrulega next level þjónusta sem á ótrúlegt magn af alls kyns skreytingum. Þar leigðum við sætacover, kortakassa, kertastjaka og serírur fyrir allan salinn.
Hjá Alloro bambino leigðum við borðanúmer og velkomin skilti og til að toppa allt leigðum við hring sem við höfðum bakvið háborðið hjá okkur frá Listræn ráðgjöf.

Ég get ekki dásamað þessar þrjár leigur meira, svo þægileg og góð þjónusta hjá þeim öllum.

Pastel blómastúdíó sá um blómaskreytingarnar og við hittumst áður og fórum yfir hvernig ég vildi hafa hlutina og vikuna fyrir brúðkaupið small þetta svo sannarlega hjá okkur og útkoman var bara nákvæmlega eins og ég hafði séð hlutina fyrir mér svo dásamleg blanda af blómum í bland við íslenska náttúru, birki og beitilyng – Útkoman var svo falleg! Ég vildi leggja mikla áherslu á blómaskreytingar því það var vá-ið sem ég vildi í veislusalnum.


Veislustjórar

Ég við vorum svo heppin að fá vinafólk okkar með okkur í lið til að veislustýra, þau Valdísi og Jóhann Alfreð. Við Valdís höfum verið vinkonur frá því við kynntumst í London árið 2008 í Au pair ævintýri og við heppin að maðurinn hennar hefur smávægilega reynslu í veislustjórnun svo saman voru þau frábært duó og stóðu sig svo vel og við svo alsæl með þetta hjá þeim.


Tónlist

Við lögðum mikið upp úr því að það yrði gaman í veislunni hjá okkur og eitt af því sem við vildum gera var að hafa hljómsveit og bara alvöru stemningu og það heppnaðist svo vel. Við bókuðum strákana í Nýju fötum keisarans og þeir eiga lof skilið. Ég sagði alltaf í aðdraganda af deginum að ef veislugestirnir myndu vakna daginn eftir og hugsa djöfull var gaman í gær, þá var markmiðinu mínu náð og ég held að það hafi heppnast svo vel hjá okkur – Allaveganna var það tilfinningin mín þegar ég vaknaði.

Nóttin – Hótel

Við vorum fyrst með hugmyndir um að gista heima á brúðkaupsnóttinni og fara svo kannski eitthvað á sunnudagsnóttina en eftir að vinafólk okkar gifti sig í júní og þau fóru á hótel, fór ég að ræða þetta við vinkonur mínar og þær mældu svo með þessu að við ákvaðum að slá til og bókuðum okkur gistingu á Hótel Natura en þau eru með tilboð fyrir brúðhjón sem býður upp á veitingar þegar maður kemur, morgunmat upp á herbergi. aðgang að spa og late check out. Vává hvað ég mæli með, fengum æðislega svítu og við nutum í botn og var fullkominn endir á þessum æðislega degi.


Ég mæli svo innilega með að skoða vel, spurja vini og fjölskyldu sem hafa nýlega gift sig en á sama tíma gera hlutina eins og ykkur langar til að hafa þá. Sem endurspeglar ykkar smekk og hvað ykkur finnst skemmtilegt og væri hið fullkomni dagur fyrir ykkur.

Nú þegar ég skrifa þetta hálfu ári eftir brúðkaupið er ekkert sem ég hefði viljað breyta eða jú okey ég hefði verið til í að ég hefði verið með einhvern með okkur í myndatökunni sem passaði upp á litlu hlutina eins og hálsmenið snérir rétt og þessi litlu atriði sem skipta litlu í stóra samhenginu, það er allt og sumt.

Vona að færslan nýtist einhverjum í undirbúningi fyrir stóra daginn og ekki hika við að senda mér línu á instagram ef þið eruð að velta einhverju fyrir ykkur!

You Might Also Like