Bakstur

Gerbollur

February 2, 2020
gerbollur

Jæja febrúar er runnin upp eftir einstaklega langan janúar mánuð, ég hélt án gríns að hann ætlaði engan endi að taka. Sem er dálítið fáranlegt því hann var víst ekkert lengri heldur en hefðbundinn janúar mánuður – hafði bara sína 31 daga. En magnið af virkum dögum, afmælum og uppákomum voru rosaleg hjá okkur þennan fyrsta mánuð ársins.

Ég er aftur á móti mjög peppuð fyrir febrúar mánuði stuttur og góður, fullur af skemmtilegum dögum eins og konudegi og bolludegi! Gerist ekki betra.

Ég verð þó eflaust búin að borða skammt minn af bollum fyrir næstu árin þegar loksins kemur að bolludegi en ég hef verið dugleg að baka ólíkar uppskriftir af bollum og ætla að deila þeim með ykkur í mánuðinum.

Bolludagur er þó ekkert eins og hann var, allir bara sáttir og glaðir með vatnsdeigsbollur með sultu og rjóma heldur er fjölbreyttnin orðin rosaleg á þessum degi, sem ég tek mjög fagnandi. Ég var ekkert hrifin af þessum degi þegar ég var að alast upp en í dag finnst mér þetta æðislegur dagur og reyni að hafa bollurnar fjölbreyttar og elska að sjá hvað bakaríin bjóða upp á hverju sinni.

Vona að þið séuð jafn spennt og ég og skellið í bollur!


Bolludeig

100 g smjör
350 ml mjólk
12 g þurrger (1 pk)
50 g sykur
½ tsk salt
1 ½ tsk kardimommur
550 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1 egg, til penslunnar

Bræðið smjör í örbylgju eða í potti. Gerið það sama við mjólkina þar til hún er ilvolg, bætið þá gerinu saman við mjólkina og leyfið að standa á borðinu í nokkrar mínútur. Blandið þurrefnunum saman í hrærivél. Byrjið að hræra saman á lágri stillingu og hellið smjörinu og síðan mjólkinni með gerinu saman við í mjórri bunu út í.

Hrærið saman í 1-3 mín. Þá er að leyfa deiginu að hefa sig en gott er að leyfa því að hefast í skálinni sem það er í og leggja volgt viskastykki yfir opið. Leyfið deiginu að ná tvöfaldri stærð og þá er hægt að halda áfram.

Stráið hveiti á borðflöt og takið deigið úr skálinni og færið yfir á borðið. Hnoðið deigið létt saman og skiptið í 12 bita. Ég vigtaði mínar bollur til að fá þær jafnar og hver bolla var 90 grömm. Þær voru vel stórar svo ef þið viljið þær minni mæli ég með að vigta og hafa þær um 60 grömm.

Hnoðið bollurnar svo “sárið” snúi niður. Leyfið þeim að hefast í 10-15 mín. Stillið ofn á 200°c.

Brjótið egg í skál og hrærið í því, takið pensil og penslið bollurnar með egginu. Setjið inn í ofn og bakið í 8-12 mín. eða þangað til þær eru orðnar gullin brúnar að ofan. Leyfið þeim að kólna vel.

Gott er að borða þessar á hefðbundinn hátt með þeyttum rjóma og sultu en þá skerið þið bollurnar í tvennt. Mér finnst frábært að setja rjómann í sprautupoka sprauta hring á neðri helming bollunnar, setja sultuna í miðjuna og rjómadropa yfir sultuna. Þá lokast sultan dálítið inn í rjómanum og lekur ekki út um allt. Njótið!


You Might Also Like