Það styttist óðum í páskana, ég skal viðurkenna að það er búið að slátra einu páskaeggi á þessu heimili. Finnst það eiginlega ekki sanngjarnt hvað þau koma snemma í búðir því það ratar óvart ofan í innkaupakerruna hjá manni. En það þýðir vonandi samt að það verður minna borðað af páskaeggi þegar páskarnir koma loksins allaveganna hjá fullorðna fólkinu á heimilinu.
Annars þá er kostur við þessa skrítnu COVID-19 tíma er að maður hefur mögulega aðeins meira svigrúm til að baka og nostra heima við. Allaveganna í mínu tilviki, hef heyrt að ástandið sé mjög mismunandi, þar sem sumt fólk þarf að sinna starfi sínu að fullu heimavið með fullt hús af ungum börnum en hérna bjarga þess sex og ellefu sér svo mikið sjálf, leika sér og dunda, meðan foreldrarnir taka vinnutarnir.
Ég fór í það baka köku sem mér fannst henta vel til páskabaksturs, létt kaka og svolítið vorleg að mínu mati. Ljós að innan og hægt að skreyta hana með pastel litum í anda páskana, kökuskrauti og litlum súkkulaði eggjum. Kakan var fljót að klárast og féll vel í mannskapinn sem fékk að njóta.
Kakan
250 g hveiti
50 g maísmjöl (maizena)
200 g púðursykur
3 tsk lyftiduft
1 tsk engifer, krydd
160 g smjör, við stofuhita
3 egg
225 ml mjólk
1 tsk vanilludropar
50-100 g karamellusósa
4 perur
Stillið ofn á 175°c, blástur. Vigtið þurrefnin og setjið í skál fyrir hrærivél. Skerið smjörið í bita, þá er vélin sett af stað á litlum hraða og smjörið sett saman við smátt og smátt. Þegar allt smjörið er komið saman við hrærið þangað til að deigið lykist helst brauðmylsnu. Setjið egg, mjólk og vanilludropa saman í skál og hrærið létt saman. Vélin sett af stað og vökvanum hellt saman við.
Hér nota ég 3×6″ (15 cm) form en uppskriftin hentar því einnig vel í 2×8″ (20 cm).
Skrælið perurnar og skerið í þunnar ræmur. Spreyið formin að innan með PAM spreyi eða með smjöri. Deilið perunum jafnt yfir formin og hellið 2-3 msk af karamellusósu í hvert form. Vigtið deigið og deilið jafnt í formin, gott er að setja 1-2 msk af karamellu yfir deigið og hræra létt í því með prjón eða gaffli. Setjið formin inn í ofn og bakið í 25-30 mín.
Þegar kakan er fullbökuð takið hana út og leyfið að kólna í 5 mín í forminu, takið svo kökuna úr forminu og leyfið að snúa á hvolf og hvíla í nokkrar mínútur. Gott er að setja hvern kökubotn í plast og inn í ísskáp. Leyfið kökunni að kólna vel í minnst 2-3 klst.
Karamellukrem
250 g smjör, við stofuhita
500 g flórsykur
2-3 msk rjómi
1 tsk vanilludropar
50 g karamellusósa, uppskrift hér
Þeytið smjörið í 3-4 mín, bætið svo flórsykrinum saman við í tveimur skömmtum. Þá er rjóma, vanilludropum og karamellusósu bætt saman við og þeytt vel sem saman, þangað til létt og ljóst.
Samsetning
Takið kökuna út úr kælinum. Setjið fyrsta kökubotninn á disk, setjið krem og dreifið úr kreminu yfir botninn, setjið næsta botn á og endurtekið. Síðan er seinasti botninn settur á og kakan hjúpuð með kreminu og slétt úr henni með spaða. Skreytið eftir eigin hugarflugi að þessu sinni litaði ég restina af kreminu í bleikt og gult ásamt karamellubrúnalitnum og setti í sprautupoka og sprautaði nokkrar rósir og dúllur á toppinn og toppaði það svo með hvítu perlu kökuskrauti.